Hamlet frá Bíldudal

Sko ef það er ekki til, þá þarf bara að ganga í málið svo það verði til. Þannig má segja að hlutirnir hafi einmitt gjörst þegar alþýðufræðimaðurinn Ingivaldur Nikulásson frá Bíldudal gekk í það stórvirki að þýða þekktasta leikverk allra tíma, Hamlet. Ástæðan var í raun mjög einföld. Þýðing Matthíasar Jochumssonar á verkinu sem hafði komið út á bók var ekki til í þorpinu Bíldudal. Verkið var hins vegar til á frummálinu svo Ingivaldur gekk í það að snara Hamlet yfir á okkar ilhýra. Hann lauk verki sínu nokkuð fyrir miðja síðustu öld en þýðingin hefur þó aldrei komið út. Fyrr en nú. Kómedíuleikhúsið, atvinnuleikhús Vestfjarða, hefur nú gefið út þessa merku þýðingu alþýðumannsins Ingivaldar Nikulássonar á bók og er hún aðeins fáanleg á tveimur stöðum. Hjá Kómedíuleikhúsinu Haukadal Dýrafirði og í heimaþorpi þýðarans, í Magazin du nord á Bíldudal.

Það má vel segja að Ingivaldur Nikulásson hafi verið mjög velvirkur á sinni lífstíð. Hann var einn af þeim sem virðast hafa fleiri klukkutíma í sólarhringnum en við hin. Það sem er enn furðulegra við þetta alltsaman er að skólaganga hans var engin. Ingivaldur fædddist á Bíldudal 30. mars 1877. Seinna flutti fjölskylda hans í Hvestu í Arnarfirði og þaðan lengra út fjörðinn eða í Selárdal. Þar andaðist faðir Ingivaldar og fær þá móðir hans með piltinn unga inni hjá prestinum í Selárdal. Þá urðu straumhvörf í lífi Ingivaldar því þar komst hann fyrst í kynni við bókmenntir að einhverju marki því klerkurinn átti dágott bókasafn. Bókin var komin í tilveru Ingivaldar og fór þaðan eigi meðan hann lifði.

Það er ekki nóg með að Ingivaldur hafi þýtt Hamlet því einnig snaraði hann Kaupmanninum frá Feneyjum eftir sama höfund. Hann þýddi einnig verk eftir Heine og sænska sorgarkvæðið, Hjálmar og Hulda. Ingivaldur fékkst og við leikritaskrif og allavega eitt þeirra, Kaupmannsstrikið, rataði á senu á Bíldudal um 1930. Einnig ritaði hann merkilega ritgerð um sögu Bíldudals, Frá liðnum tímum, og hina merku ævisögu Reinalds Kristjánssonar pósts, Á sjó og landi. Síðast en ekki síst var Ingivaldur listateiknari teiknaði þá helst sitt nánasta umhverfi má þar nefna íbúðar- og verslunarhús Péturs Thorsteinssonar er kallaður var Bíldudalskóngurinn. Margt fleira mætti nefna en hafið það þó hugfast að öll þessi verk voru unnin eftir hinn oft langa vinnudag alþýðuverkamanns á fyrri hluta síðustu aldar.

Hamlet í þýðingu Ingivaldar Nikulássonar fæst einsog áður var getið í Kómedíuleikhúsinu Haukadal og í Magazin du nord á Bíldudal. Einnig er hægt að panta bókina í síma: 891 7025.

Elfar Logi Hannesson

Ingivaldur Nikulásson.

DEILA