Framtíðin er björt!

Árið 2014 slógum við hjónin til og fluttumst vestur á firði eftir fjögurra ára nám. Valið var Suðureyri, enda tengsl okkar beggja þangað og því var þetta nokkuð auðveld ákvörðun þegar litið er tilbaka. Með okkur í för voru þrír drengir, sem nú eru orðnir fjórir talsins. Við fundum það fljótlega að það eru ákveðin forréttindi að ala upp börn á Suðureyri og í spjalli okkar og samskiptum við fólk í öðrum bæjarkjörnum er það sama upplifun, að það er gott að ala börn upp hér. Það er alls ekki sjálfgefið að svo sé en það þarf heilt þorp til að ala upp barn. Við búum nefnilega svo vel að eiga hér í bæjarfélaginu öllu, fólk sem er framúrskarandi í því sem þau starfa við hvort sem það er á sviði leik-, grunn-, tónlistar- eða menntaskóla en bráðum munum við í fjölskyldunni kynnast þeim að auki. Þarna er lykilatriðið að því að samfélagið okkar virkar svo vel, því þetta eru grunnstoðirnar okkar.

Samgöngur eru takmarkaðar til og frá Suðureyri, Flateyri og Þingeyri, og er það því miður staðan sem ríkt hefur síðan við fluttum vestur. Mikil ánægja ríkir með frístundarútuna sem gengur á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur og hefur sú ánægja ekki farið fram hjá neinum að ég tel sem notar þessa frábæru lausn. Þetta verðum við að innleiða í bæjarfélaginu öllu til að við sem búum í Ísafjarðarbæ getum öll notið þess, og börn í öðrum kjörnum bæjarfélagsins geti stundað íþróttastarf óháð staðsetningu. Þetta yrði mikið happa og framfaraskref fyrir alla þá sem geta nýtt sér þetta, þeir sem komnir eru af léttasta skeiðinu gætu nýtt sér þetta að sjálfsögðu líka.

Á morgun, 14. maí göngum við til kosninga. Við í Ísafjarðarbæ erum svo heppin að geta boðið fram fjóra lista þar sem allir eru boðnir og búnir að starfa fyrir bæjarfélagið sitt. Við í Sjálfstæðisflokknum höfum sett fram stefnuskránna okkar, bæði í stafrænu sem og prentuðu formi og er það von og trú okkar að með sterka framtíðarsýn og samstarfsvilja náum við að klára þá hluti sem þarf að klára. Við höfum teflt fram bæjarstjóraefni sem er klár í slaginn og tilbúin að starfa fyrir okkur öll og að sjálfsögðu þvert á flokka. Það er einmitt það sem við þurfum, að flokkar vinni saman að málefnum sem snertir alla fleti bæjarfélagsins og að við sem bæjarfulltrúar tökum upp þá nýju pólitík sem við þurfum. Þeir sem innleiða það eiga eftir að uppskera ríkulega.

Kæru bæjarbúar, ég hvet ykkur að sjálfsögðu til að nýta kosningaréttinn sem er okkur svo mikilvægur. Setjum X við D á kjördag.

Aðalsteinn Egill Traustason

Höfundur skipar 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi sveitastjórnarkosningar.

DEILA