Framtíðarsýn fyrir framúrskarandi skóla

Ísafjarðarbær starfrækir fjóra grunnskóla í jafnmörgum byggðakjörnum. Þetta eru bæði fámennir og fjölmennir skólar með frábæru starfsfólki og virku samstarfi við foreldra. Rekstur skólanna er að sama skapi einn viðamesti málaflokkur sveitarfélagsins og einn stærsti útgjaldaliðurinn.

Góðir leik- og grunnskólar eru lykilþættir í að byggja upp kröftugt, fjölbreytt og farsælt samfélag. Við eigum því setja okkur það markmið að allir grunnskólar Ísafjarðarbæjar verði framúrskarandi á landsvísu. Það er hægt ef allir leggjast á eitt enda þarf öflugt samstarf allra aðila í skólasamfélaginu til að ná slíku markmiði.

Tækni og samstarf er lykillinn

Við eigum ekki að fækka grunnskólum. Þvert á móti ættum við að stefna að því að koma betur til móts við þarfir allra barna með fjölbreyttum leiðum til náms. Nám á að vera fjölbreytt, bæði í tíma og rúmi.

Grunnskóli er nefnilega ekki eingöngu húsnæði með kennslustofu og krítartöflu. Hann er svo miklu meira. Með nýjum starfrænum innviðum milli starfsfólks og nemenda opnast veröld án hindrana og landamæra sem jafnar aðstöðumun milli fámennari og fjölmennari skóla. Jafnframt auka þeir möguleika á meiri hagkvæmni í rekstri.

Fjölbreytni og gæði

Til að auka fjölbreytni og gæði í námi gagnvart nemendum þarf að þróa samstarf bæði nemenda og kennara. Þetta mætti gera til að mynda með sameiginlegu framboði á valgreinum á unglingastigi þvert á skólana í Ísafjarðarbæ sem gæfi tækifæri til meiri fjölbreytni en ella.

Eins mætti leita eftir meira samstarfi við kennara utan sem innan sveitarfélagsins þar sem hluti námsins væri í fjarnámi. Eftir sem áður yrði meirihluti námsins staðbundið í fjölmennari skólum en hlutur fjarnáms eitthvað hærri í fámennari skólunum. Lítill skóli getur því orðið framúrskarandi eins og stærri skólar.

Með því að nýta tæknina og fjölga samstarfsleiðum er hægt að stórauka aðgengi allra nemenda að sérhæfðum námsgreinum, sérhæfðari kennurum og auka gæði sérkennslu þar sem þörf er á. Hér þarf vitaskuld að stilla saman strengi í samvinnu við skólastjórnendur, kennara og foreldra og vinna markvisst að því að útfæra gæða skólastarf og umhverfi fyrir bæði nemendur og kennara.

Uppfærð skólastefna Ísafjarðarbæjar

Ég vil að Ísafjarðarbær uppfæri skólastefnu sína strax á nýju kjörtímabili og setji það sem leiðarstef í sína stefnu að efla nám óháð staðsetningu. Það þýðir einfaldlega að það eigi að bjóða upp á fjölbreyttar leiðir til betra náms fyrir nemendur og að skólastefnunni fylgi innleiðing á gæðaviðmiðum. Þannig geta allir grunnskólar Ísafjarðarbæjar orðið framúrskarandi.

Steinunn Guðný Einarsdóttir,

höfundur skipar 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ fyrir komandi sveitastjórnarkosningar og á tvo stráka í grunnskóla Önundarfjarðar

DEILA