Fjölbrautaskóli Snæfellinga, hvað er svona merkilegt við hann?

Frá stofnun skólans árið 2004 hefur verið unnið samkvæmt hugmyndafræði dreifnáms þar sem upplýsingatækni er notuð í verkefnamiðuðu námi. Nemendur leysa verkefni ýmist sem einstaklingsverkefni eða samvinnuverkefni.  Markmið þessarar leiðar var að þróa dreifnámsaðferðir samhliða dagskólakennslu.  Unnið er samkvæmt leiðsagnarnámi þar sem kennarar sinna verkstjórnar- og leiðsagnarhlutverki.  Sömuleiðis er námsmati hagað þannig að nemendur fá upplýsingar um hvað þeir gera vel ásamt ábendingum um það sem betur má fara, svokallað leiðsagnarmat. Með þessum vinnuaðferðum verður nemandi virkur þátttakandi í eigin námi og meðvitaður um styrkleika sína og veikleika.  

Innan æ fleiri framhaldsskóla hefur leiðsagnarnám ýmist verið tekið upp að hluta eða öllu leyti.  Snemma á þessu ári var haldin fjölmenn námstefna um leiðsagnarnám og fór hún fram í Fjölbrautaskólanum í Mosfellsbæ.  Tveir kennarar skólans voru þar með málstofur þar sem þeir kynntu kennsluaðferðir sínar og svöruðu spurningum áhugasamra kennara annarra skóla.

Notkun upplýsingatækni í kennslu hefur einnig gert það að verkum að nærsamfélag skólans er stærra en ella þar sem nemendur þurfa ekki nauðsynlega að vera í skólahúsnæðinu í Grundarfirði til að stunda nám sitt og vera í sambandi við kennara.  Kennslustundum er skipt í fastar kennslustundir sem öllum dagskólanemendum ber skylda til að mæta í og verkefnatíma þar sem nemendur geta leitað til kennara eftir þörfum. Þannig geta nemendur jafnvel hitt, fleiri en einn kennara í hverjum verkefnatíma.

Vegna sérstöðu í kennsluháttum reyndist bæði nemendum og kennurum FSN tiltölulega auðvelt að færa alla kennslu yfir á veraldarvefinn þegar sóttvarnaryfirvöld fyrirskipuðu að loka skyldi öllum framhaldsskólum tímabundið. Stundaskrár héldust óbreyttar þennan tíma og nemendur mættu í kennslustundir á Teams, unnu verkefni samkvæmt fyrirmælum kennara og fengu þá leiðsögn sem þeir þurftu.

Eftir að skólahald mátti hefjast á ný, var ákveðið með tilliti til umhverfissjónarmiða og þess að kennsla á veraldarvefnum gekk vel, að akstur í skóla yrði fjóra daga vikunnar. Það þýðir þó ekki að kennsla sé einungis fjóra daga í viku, heldur eru verkefnatímar á föstudögum þar sem ætlast er til að nemendur leiti leiðsagnar kennara.  Til viðbótar við fjórar fastar 50 mínútna kennslustundir í hverjum fimm eininga áfanga hefur hver kennari 40 mínútna verkefnatíma í hverjum hópi. Kennari getur því verið með allt að 2,5 klst. í verkefnatíma. Þannig geta nemendur fengið mun meiri tíma með kennara en námskrár gera ráð fyrir.

Rannsóknarmiðstöðin, Rannsóknir og greining, lagði könnun fyrir framhaldsskólanema á landinu í nóvember árið 2021. Niðurstöður þeirrar könnunar leiddu í ljós að nemendur skólans fundu almennt minna fyrir streitu samhliða faraldrinum en nemendur annarra skóla. 

Nemendur okkar tala sérstaklega um gott aðgengi að kennurum og að samstarf við þá sé á jafningjagrundvelli.  Niðurstöður könnunar Rannsóknar og greiningar staðfesta þetta. Einnig kom fram að kennslufyrirkomulagið hafi hentað vel og nemendur átt auðvelt með að stunda námið. Auk þess töldu 84% nemenda námið einkennast af fjölbreytni.  Í skólanum eru ekki lokapróf en styttri próf eru lögð fyrir á skólatíma. Vinnuálag á nemendur er nokkuð jafnt yfir skólaárið þó vissulega geti komið álagspunktar.  Allan námsferilinn þurfa nemendur að skipuleggja vinnu sína og sinna henni vel.  Tileinki þeir sér þessi vinnubrögð ættu þeir að vera vel undirbúnir fyrir nám og störf í nútíma samfélagi.

Myndir: Tómas Freyr Kristjánsson.

Erna Guðmundsdóttir og Þiðrik Örn Viðarsson, íslenskukennarar,

Hafsteinn Mar Sigurbjörnsson, enskukennari.

DEILA