Fiskeldissjóður: 8 styrkir til Vestfjarða

Væntanleg lóð nemendagarðanna er við Fjarðarstræti 20.

Stjórn Fiskeldisjóðs hefur úthlutað öðru sinni styrkjum til eflingar innviða og atvinnulífs í sveitarfélögum þar sem sjókvíaeldi er stundað. Að þessu sinni var úthlutað styrkjum til níu verkefna í sex sveitarfélögum, samtals 185,1 milljónir króna. Úthlutun á fyrra ári nam 105 milljónum króna. 

Eftirfarandi níu verkefni frá sex sveitarfélögum hlutu styrk:

  • Vatnsveita í Bolungarvík, bygging miðlunartanks, Bolungarvíkurkaupstaður, 33,4 milljónir kr.
  • Endurnýjun vatnslagna í Staðardal, Ísafjarðarbær (framhaldsverkefni), 33,4 milljónir kr.
  • Nemendagarðar Háskólaseturs, frágangur lóðar, Ísafjarðarbær, 16 milljónir kr.
  • Fráveituframkvæmdir í Djúpavogi (framhaldsverkefni), Múlaþing, 32,4 milljónir kr.
  • Smitvarnir í Súðavíkurhöfn, Súðavíkurhreppur, 4,1 milljón kr.
  • Uppbygging á hafnarsvæði, Tálknafjarðarhreppur, 28,8 milljónir kr.
  • Áhaldahús og slökkvistöð á Bíldudal, Vesturbyggð, 22,6 milljónir kr.
  • Vatnsöryggi í Vesturbyggð, (framhaldsverkefni), Vesturbyggð, 4,1 milljón kr.
  • Öruggar gönguleiðir, gerð gangstétta, Patreksfirði, Vesturbyggð, 10,3 milljónir kr.

Þrjú af ofangreindum verkefnum fengu styrk við úthlutun 2021.

Samþykktar umsóknir námu samtals um 299,5 milljónum króna en þar sem ráðstöfunarfé sjóðsins er lægra en sú fjárhæð voru styrkfjárhæðir skertar hlutfallslega í samræmi við forgangsröðun stjórnar.

Það eru fyrirtæki sem stunda fiskeldi í sjó sem greiða svonefnt fiskeldisgjald. Greitt er fyrir hvert kg af slátruðum eldisfiski. Er það 3,5% af útflutningsverðinu þegar verð er 4,8 evrur á kílógramm eða hærra og lægra þegar verðið er lágt. Um þessar mundir er verðið hærra en það hefur nokkru sinni verið og mun hærra en t.d. verð á þorski.

DEILA