Ferðafélag Ísafjarðar: Kvennaferð um Önundarfjörð

Laugardaginn 4. júní

Fararstjórn: Helga Dóra Kristjánsdóttir
Mæting kl. 10 við Bónus á Ísafirði og að Holti í Önundarfirði kl. 10:30

Hringferð frá Holti í Holt. Gengið er ,,rangsælis“ inn Bjarnadal fram hjá bæjunum Vöðlum og Tröð. Stikað á steinum yfir Berjadalsá og þegar komið er að Kirkjubóli er gengið eftir Vestfjarðavegi fram hjá bænum Mosvöllum niður að Holti.
Vegalengd um 11 km, göngutími er áætlaður um 4 – 5 klst.

Hugmyndin að baki þessari gönguferð kviknaði reyndar við lestur frásagnarinnar af því þegar Þuríði Jónsdóttur var bjargað frá því að lenda á bálinu vegna galdraáburðar Sr. Jóns Magnússonar. Hann taldi sig og heimafólk sitt verða áfram fyrir galdraásóknum þrátt fyrir að búið væri að brenna þá Kirkjubólsfeðga, föður og bróður Þuríðar. Þuríður væri líka sek og hún skyldi einnig fara á bálið. Þuríður ákvað þá að flýja að heiman yfir að Holti í Önundarfirði og leita skjóls hjá prófastshjónunum, séra Jóni Jónssyni og Halldóru konu hans. Þangað kom Þuríður haustið 1656 og dvaldi þann vetur ýmist í Holti eða hjá Brynjólfi Bjarnasyni í Neðri – Hjarðardal í Dýrafirði.

Veturinn 1657 – 1658 var svo loks réttað í máli Þuríðar og varð niðurstaðan sú að vísa málinu til alþingis. Sumarið 1658 riðu þau bæði suður til Öxarár, séra Jón og Þuríður. Í lögréttu var samþykkt að Þuríður gæti leyst sig frá ákærum séra Jóns með tylftareiði en færi svo að hún kæmi honum ekki fram skyldi hún þola refsingu að lögum með því að brennast á báli. Þuríði var gert að vinna eiðinn innan tíu vikna og hún þurfti einnig að fá tólf konur úr sinni heimabyggð eða næsta nágrenni til að sverja sakleysi hennar. Þuríður sór sinn eið á Mosvöllum en þar var þingstaður Önfirðinga. Tylftareiðurinn gekk einnig fram því að það tókst að fá tólf konur í Önundarfirði til að sverja tylftareið með Þuríði. Þessar kynsystur Þuríðar áttu þar með sinn þátt í því að bjarga lífi hennar.

Fullvíst má samt telja að prófastshjónin í Holti og þá einkum frú Halldóra hafi átt mestan þátt í bjarga Þuríði frá því að brenna á báli. Almúgamönnum reyndist í velflestum tilvikum erfitt að afla sér eiðvætta án stuðnings frá einhverjum úr hópi þeirra sem höfðu völd og áhrif. Dýrfirðingurinn Brynjólfur Bjarnason hefur áreiðanlega einnig átt þarna hlut að máli með lögkænsku sinni.

Það væri vel við hæfi að þessa atburðar þar sem réttlætið og skynsemin sigraði ranglætið og hin myrku öfl væri minnst með veglegum hætti. Það er svo margt annað sem hægt er að segja frá og skoða á göngusvæðinu. Fararstjórinn, heimakonan Helga Dóra Kristjánsdóttir, mun örugglega greina frá mörgu á meðan á göngunni stendur. Fjölmennum í skemmtilega og fróðlega göngu.

DEILA