Farsæld barna skilar sterkari einstaklingi út í lífið

Þáverandi barna- og félagsmálaráðherra Ásmundur Einar Daðason lagði fram á Alþingi lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og voru þau samþykkt á Alþingi í fyrravor. Lögunum er ætlað að stuðla að farsæld barna og er megin markmið þeirra að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættingu þjónustu við hæfi án hindrana.

Meginmarkmið laganna er að:

  1. Fylgjast með velferð og farsæld barna og foreldra og meta þörf fyrir þjónustu.
  2. Bregðast við þörf barna og foreldra fyrir þjónustu á skilvirkan hátt um leið og þörf krefur.
  3. Hafa samráð sín á milli með það að markmiði að þjónusta sé samfelld og samþætt í þágu velferðar og farsældar barna og foreldra.

Kerfið skal tala saman en ekki einstaklingurinn við kerfið

Farsældarþjónusta er öll þjónusta sem mælt er fyrir í lögum að sé veitt á vegum ríkisins eða sveitarfélaga og á þátt í að efla og/eða tryggja farsæld barns. Hún nær yfir grunnþjónustu sem er aðgengileg öllum börnum og/eða foreldrum til einstaklingsbundinnar þjónustu meðal annars á sviði menntamála, heilbrigðismála, löggæslu, félagþjónustu og barnaverndar.

Samþætt þjónusta í þágu farsældar barns er skipulögð og samfelld þjónusta sem hefur það að markmiði að stuðla að farsæld barns hverju sinni.

Markmiðið er að veita snemmtæka íhlutun og þar með að koma í veg fyrir að erfiðleikar og hindranir fylgi einstaklingnum inn í fullorðinsárin með þeim afleiðingum að vandamálin verða þyngri og erfiðara er að leysa þau.

Stefnt er að því að þjónustan verði veitt lagskipt og fer eftir þörfum barnsins.

Fyrsta stigið tilheyrir grunnþjónustu sem er aðgengileg öllum börnum og foreldrum sem og einstaklingsbundnum snemmtækum stuðningi í nærumhverfi barns. Áhersla er á bætta líðan og framfarir. Oft eru þetta tímabundnar áskoranir eins og skólasókn, þroski, hegðun, einelti, heilsufar o.s.frv. og oft nægir þetta til að koma barni á rétta braut. Fjölskyldum og börnum sem þurfa snemmtækan stuðning er tryggður aðgangur að tengilið í nærumhverfi barnsins t.a.m. innan skólans.

Á öðru stigi þjónustu tilheyrir úrræði þar sem veittur er einstaklingsbundinn og markvissari stuðningur með faglegu mati og/eða frumgreiningu á þörfum barns. Börn sem fá þjónustu á þessu stigi hafa þörf fyrir fjölbreytilega þjónustu sem er veitt af fleiri en einum. Dæmi um þjónustu á þessu stigi er ýmis stuðningsþjónusta á vegum heilbrigðis-, félags- og skólaþjónustu.

Börn sem þurfa  þjónustu á  þriðja stigi er veittur einstaklingsbundinn og sérhæfðari stuðningur sem er fjölþættur og veittur til lengir tíma. Einstaklingnum er fylgt eftir og úrræðin láta tala saman í stað þess að barnið og foreldrar þurfi að leita eftir ólíkum úrræðum þeim til stuðnings.  

Innleiðing hjá Ísafjarðarbæ

Undirbúningur fyrir innleiðingu farsældarlaganna er hafin hjá Ísafjarðarbæ en áætlað er að innleiðingaferlið geti staðið yfir í þrjú til fimm ár. Verkefnin framundan eru fjölmörg og krefjandi og krefjast náins samstarfs sveitarfélaga og stofnana innan sveitarfélagsins sem og stuðning bæjarstjórnar. Við hjá Framsókn viljum fylgja þessari innleiðingu fast eftir og með samstilltri vinnu og virku samtali getum við tekið höndum saman um þróun þjónustu sem byggist á farsældarlögunum, þjónustu til framtíðar og til heilla fyrir börn og fjölskyldur í Ísafjarðarbæ.

Elísabet Samúelsdóttir

Höfundur skipar 2. Sætið á lista Framsóknar fyrir næstkomandi sveitastjórakosningar.

DEILA