Eignir Orkubús Vestfjarða hækka um 3,3 milljarða króna

Horft fram Vatnsdalinn.

Eigið fé Orkubús Vestfjarða samkvæmt ársreikningi fyrirtækisins hefur hækkað um nærri fjóra milljarða króna frá lokum árs 2019 til sama tíma 2021. Það nam 6,2 milljörðum króna en um síðustu áramót er það 10 milljarðar króna.

Mestu munar um breytt mat á eignarhluta Orkubúsins i Landsneti. Orkubúið á 5,98% í Landsneti og í lok árs 2019 var hluturinn metinn á 363 milljónir króna. Í fyrra voru samþykkt lög á Alþingi þess efnis að íslenska ríkið skuli vera eigandi Landsnets frá og með 1. júlí 2022. Orkubú Vestfjarða hefur fram að þessu fært eignarhlut sinn í Landsneti á kostnaðarverði í en er nú fært á gangvirði hlutarins. Það er reiknað sem 5,98% af eigin fé Landsnets og verður þá hlutur OV metinn á 3,7 milljarða króna en hafði verið færður á 363 m.kr. Hækkunin nemur 3,3 milljörðum króna.

Þetta leiðir til þess að mismunurinn 3,3 milljarðar króna er aukin eign Orkubúsins og hækkar eigið fé fyrirtækisins sem því nemur. Í frétt Bæjarins besta í gær var sagt að eignaaukinn væri 577 m.kr. en það er á misskilningi byggt. Þessi fjárhæð er hluti 3,3 milljarða króna hækkunar á mati eignarhlutans en 2.733 m.kr. er hinn hlutinn og var færður beint á efnahagsreikninginn.

Tekið er fram í ársskýrslu Orkubúsins að þetta mat á virði eignarhlutsins, sem 5,98% af eigið fé Landsnets, þurfi ekki að endurspegla endanlegt söluvirði hlutarins. Nefna má að í ársreikningi Orkuveitu Reykjavíkur , sem á 6,78% í Landsneti er eignarhluturinn færður á 6.095 milljónir króna. Það er um 46% hærra verð en fært er til bókar hjá Orkubúi Vestfjarða. Væri stuðst við sama verð væri hlutur Orkubúsins 5,4 milljarða króna virði eða 1,7 milljarði kr. meira.

Þessi mikla hækkun á eignahlið Orkubúsins kemur sér vel ef til virkjunarframkvæmda kemur. Lauslegt mat á kostnaði við t.d. Vatnsdalsvirkjun er um 10 milljarðar króna og það er mikill búhnykkur fyrir Orkubúið að fá um þriðjung þess kostnaðar með hærra verði fyrir eignarhlutinn í Landsneti.

DEILA