Af hverju að kjósa Pírata

Spurningin sem ég fæ ofast er „afhverju ætti ég að kjósa Pírata“ og svarið er ekki endilega einfalt. Það eru margar ástæður og missmunandi hvort þær finni samhljóm meðal fólks. Ég held samt að aðal ástæðan gæti verið til þess að koma í veg fyrir stöðnun. Það hefur verið mikil uppstokkun á listunum meðal hina flokkana, sem er mjög heilbrigt en þetta eru ennþá sömu flokkarnarir og hafa verið með völdin, deilandi þeim fram og til baka sem á það til að ná ákveðnu jafnvægi þar sem stjórnsýslan er þægilega dofin. Hér gætu Píratar stigið inn í,  set raflost í gegnum kerfið, vakið það upp og náð fram nýjum lausnum við vandamálum sem stjórnsýslan vissi ekki einu sinni af. Þetta er tækifæri til þess að vakna, setja fram sýn fyrir framtíðana en ekki aðeins bregðast við fortíðinni.

Önnur ástæða til að kjósa Pírata væri að við erum reiðubúin að sanna okkur, ef þú gefur okkur tækifærið þá munum við vinna myrkrana á milli til þess að vera traustsins verð. Að leita til íbúa, fylgja eftir ábendingum og finna farvegi fyrir þær kvartanir sem fólkið hefur. Að ekki bara bíða eftir því að íbúar komi til okkar heldur að stunda gagnasöfnun af ákafa. Við erum svöng fyrir þetta tækifæri og áttum okkur á því stóra verkefni sem væri framundan. Við viljum ekki þægilegt kjörtímabil heldur viljum við þunga áskorun. Við erum ný og þessvegna óreynd en við erum tilbúin að læra.


Svo vil ég enda á þessu. Við neitum að taka þátt í liða pólitík þar sem við reynum allt til að snúa okkur undan ábyrgð og varpa henni yfir á „andstæðinga“ okkar. Ef við klúðrum þá munum við gangast við því og jafnvel segja af okkur ef það er tilefni til þess. Við skulum taka ábyrgð á okkar gjörðum og taka við góðum hugmyndum hvaðan sem þær koma. Við reynum að gera það sem er best fyrir bæinn en ekki það sem er best fyrir okkar pólitísku framtíð. Komum hreint fram og viðurkennum þegar mótherjar okkar standa sig vel. Auðvitað munum við reyna að draga athygli að því sem við gerum vel en þegar allt kemur til alls mun næsta kjörtímabil snúast um að gera Ísafjarðarbæ að betra samfélagi en ekki um að ná endurkjöri.

Pétur Óli Þorvaldsson
Oddviti Pírata í Ísafjarðarbæ
Stað, Súgandi

DEILA