76,5 m.kr. styrkur til björgunarbáts á Flateyri

Dómsmálaráðuneytið leggur Slysavarnafélaginu Landsbjörg til 115 milljóna króna styrk til eflingar á sjóbjörgunargetu björgunarsveita á Flateyri og Húsavík.
Styrknum verður skipt þannig að 76,5 m. kr. er veitt til kaupa á björgunarbát á Flateyri og 38,5 m. kr. er veitt í kaup á björgunarbát á Húsavík. Þetta er gert með hliðsjón af fenginni reynslu og þarfagreiningu á staðsetningu björgunarskipa og báta. Markmiðið er efling á sjóbjörgunargetu á miðunum við landið en einnig að tryggja öryggi íbúa á Flateyri við þær aðstæður sem geta skapast vegna ofanflóðarhættu.
Bátarnir verða af gerðinni Rafnar 1100 PRO SAR og eru framleiddir af samnefndu íslensku fyrirtæki. Slysavarnafélagið Landsbjörg er eigandi tveggja báta af sömu gerð og hefur reynslan af þeim verið afar góð, sérstaklega er varðar sjóhæfni. Vonir standa til að bátarnir verði afhentir fyrir áramót.

Snjóflóðahætta á Flateyri

Í snjóflóðunum á Flateyri í ársbyrjun 2020 voru engar leiðir færar til sjúkra- eða aðfangaflutninga nema sjóleiðina inn Önundarfjörð. Með því að staðsetja björgunarbát á Flateyri verður hægt að sigla með sjúklinga eða aðföng inn og út Önundarfjörð. Þá verður björgunarbáturinn geymdur á landi á milli útkalla og æfinga og er þar með öruggur fyrir frekari snjóflóðaáföllum sem kunna að hafa áhrif á höfnina á Flateyri. Eins og gerðist þegar flóðið féll og margir bátar eyðilögðust.

Björgunarbátarnir verða eign Slysavarnafélagsins Landsbjargar en félagið gerir samninga um afnot björgunarbátanna við björgunarsveitirnar Sæbjörg á Flateyri og Garðar á Húsavík. Landsbjörg skuldbindur sig til þess að tryggja staðsetningu björgunarbátsins á Flateyri í a.m.k. 15 ár eða þar til fullnægjandi snjóflóðavörnum hefur verið komið fyrir og samgöngur til og frá Flateyri teljast viðunandi samanborið við aðra staði á Vestfjörðum.

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra:
„Það er mikilvægt að björgunarsveitir landið um kring hafi yfir að ráða öflugum björgunarskipum og bátum því þörfin á betra viðbragði eykst með breyttum atvinnuháttum og aukningu á farþegaflutningum, eins og við sjáum við Skjálfanda, og tómstundaiðkun á sjó. Fyrir Flateyringa er þetta sérstaklega mikilvægt öryggistæki því við höfum séð hvernig lokast hefur fyrir samgöngur á landi þegar hættuástand hefur skapast. Þetta er því mikilvægur áfangi og fagnaðarefni að geta áfram treysta á öflugt og gott samstarf við Landsbjörg og björgunarsveitir landsins í þessum mikilvægu öryggismálum.”

DEILA