Úrslit Stóru upplestrarkeppninnar

Á miðvikudag fór lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fram í Hömrum. Þrettán nemendur úr 7.bekk á norðanverðum Vestfjörðum tóku þátt fyrir hönd sinna skóla og stóðu sig allir með mikilli prýði.

Í upphafi hátíðarinnar lék Skólalúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar tvö lög undir stjórn Madis Maeekalle; Livin´da vida loca eftir Desmond Child og Who let the dogs out eftir Anslem Douglas.

Hafdís Gunnarsdóttir, sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs Ísafjarðarbæjar var kynnir keppninnar. Alexander Sebastían Magneuson, nemandi í 8.bekk G.Í. kynnti skáld keppninnar, sem voru að þessu sinni þau Guðrún Helgadóttir og Þórarinn Eldjárn. Nemendur völdu sér textabrot og ljóð eftir þessa höfunda og lásu í tveimur umferðum.

Í hléi voru þrjú tónlistaratriði í boði 7. bekkinga G.Í. Gunnar Geir Gunnarsson lék á píanó Innocence eftir Burgmüller, Urður Óliversdóttir lék Blackbird eftir þá Lennon & McCartney á gítar og þær stöllur Sigurbjörg Danía Árnadóttir og Silja Marín Jónsdóttir sungu saman Kvæðið um fuglana.

Dómarar keppninnar voru þau Bergþór Pálsson, Gísli Elís Úlfarsson, Guðlaug Jónsdóttir og Sólrún Geirsdóttir. Þeirra starf var ekki auðvelt, þar sem keppendur þóttu mjög jafnir og einstaklega vel æfðir. Úrslit urðu þau að Sigurbjörg Danía Árnadóttir hlaut 1.verðlaun, Aram Nói Norðdahl Widell hlaut 2.verðlaun og Helga Sigríður Jónsdóttir 3.verðlaun. Þau eru öll nemendur við Grunnskólann á Ísafirði. Að launum fengu þau öll bókina Í huganum heim eftir Guðlaugu okkar Jónsdóttur, auk þess sem Landsbankinn gaf sigurvegaranum peningaverðlaun. Þá fengu allir lesarar viðurkenningarskjal fyrir sína þátttöku og þá alúð sem þau hafa lagt í æfingar.

Sigurbjörg Danía Árnadóttir hlaut 1.verðlaun
Aram Nói Norðdahl Widell hlaut 2.verðlaun

Helga Sigríður Jónsdóttir hlaut 3.verðlaun

Markmið upplestrarkeppni í 7. bekk grunnskóla er að vekja athygli og áhuga í skólum á vönduðum upplestri og framburði. Mestu skiptir að kennarar nýti þetta tækifæri til að leggja markvissa rækt við einn þátt móðurmálsins með nemendum sínum, vandaðan upplestur og framburð, og fái alla nemendur til að lesa upp, sjálfum sér og öðrum til ánægju. Keppnin var sett 16.nóvember s.l. á Degi íslenskrar tungu og hafa nemendur verið að æfa sig markvisst síðan, undir leiðsögn sinna kennara og foreldra.

DEILA