Uppskrift vikunnar – Humar

Fátt finnst mér jafngott og humar og þessi uppskrift er að mínu mati alveg skotheld. Að minnsta kosti hef ég boðið ansi mörgum uppá hana og vekur alltaf lukku.

Ef þið eigið eins og ég í minni fjölskyldu ofnæmispésa sem þola ekki hvítlauk er alveg hægt að skipta hvítlauknum út fyrir þá heilan rauðlauk.

Innihald

1400g stór humar

300g smjör

4 stk hvítlauksrif

2 msk söxuð fersk steinselja

Salt, pipar

2stk saxaðir hvítlauks geirar

1 stk gott brauð

Salat

Aðferð

Kljúfið humarinn þegar hann er hálffrosinn og fjarlægið „skítaröndina“. Best er að gera þetta undir mjórri vatnsbunu og þerra síðan humarinn áður en ég raða honum á bakka.

Bræðið saman smjör, pressuð hvítlauksrif og steinselju.

Hellið smjörblöndunni jafnt yfir humarhalana í skúffunum með matskeið, setjið vel af smjöri á hvern bita og kryddið síðan með salti og pipar.

Grillið í ofni við 230°C í ca. 4-7 mínútur eða þar til halarnir byrja að krullast upp, þá má taka þá strax út úr ofninum.

Gott er að setja humarinn í fat og hella restinni af smjörinu yfir.

Berið fram með góðu brauði og salati.

Verði ykkur að góðu!

Halla Lúthersdóttir.

DEILA