Uppbygging framundan

Kæru íbúar Ísafjarðarbæjar, bæjarstjórnarkosningar fara fram 14. maí n.k. Ég er oddviti Sjálfstæðisflokksins og reyni frumraun mína á pólitískum vettvangi. 

Ég er þó ekki ókunnugur stjórnsýslunni, starfaði um 12 ár sem sviðstjóri hjá Ísafjarðarbæ ásamt því að sinna starfi skipulags- og byggingarfulltrúa.

Í dag starfa ég sem útibústjóri verkfræðistofunnar Verkís á Ísafirði. Stór hluti vinnu minnar sl. 20 ár hafa snúist um skipulagmál og uppbyggingu fyrir sveitarfélög. Það er einmitt vegna þekkingar og reynslu minnar á þessu sviði sem ég ákvað að slá til og bjóða fram krafta mína.

Skipulagmál

Eftir samtöl mín við íbúa tel ég að kosningarnar í maí muni snúist um skipulagsmál. Skipulagsmálin þurfa að vera vönduð, í takt við tímann og uppfylla kröfur íbúa og fyrirtækja.

Vestfjarðarstofa er um þessar mundir að kynna uppbyggingu á Vestfjörðum, þar kemur fram að þörf sé á hundruðum íbúða á Vestfjörðum. Ísafjarðarbær á að vera leiðandi sveitarfélag í þeirri uppbyggingu.

Það er mikill kraftur í íbúum og fyrirtækjum á svæðinu, til marks um það er búið að úthluta síðustu einbýlishúsalóðinni í Tunguhverfi. Verktakar bíða eftir að fá að hefja uppbyggingu fjölbýlishúsa á Eyrinni á Ísafirði. Það er því mjög mikilvægt að yfirfara núverandi deiliskipulag af Eyrinni og vinna deiliskipulag af efri bænum í Skutulsfirði með það að markmiði að koma fyrir nýjum og fjölbreyttum lóðum.

Deiliskipulag fyrir Hlíðargötu á Þingeyri er í vinnslu og verður hægt að auglýsa lausar lóðir á næstu vikum.

Uppbygging

Á næstu vikum mun Lýðskólinn á Flateyri hefja byggingu 14 íbúða fyrir nemendur sína, gert er ráð fyrir að flutt verði inn í þær íbúðir í lok árs.

Háskólasetrið er með í undirbúningi byggingu íbúða fyrir 40 nemendur á Eyrinni á Ísafirði.

Fiskeldið er loksins að hefjast í Djúpinu með tilheyrandi atvinnuuppbyggingu.

Fyrirtækin á svæðinu eru í mikilli uppbyggingu eins og sjá má hvert sem farið er, það eru því spennandi og krefjandi tímar framundan hjá okkur.

Bæjarfulltrúar þurfa að tryggja að framboð lóða sé í takt við eftirspurn og vera með skýra framtíðarsýn. Þess vegna verður það okkar fyrsta verk að breyta 5.gr í reglum um úthlutun lóða og gera þannig einstaklingum og fyrirtækjum einfaldara að byggja, við megum engan tíma missa.

Fjármál bæjarfélagins

Fjárhagsstaða sveitarfélagsins var góð áður en Covid skall á, veiran hafði töluverð áhrif en við munum ná vopnum okkar á ný.

Tekjur sveitarfélagsins árið 2021 voru 7 milljarðar, þar af er útsvar 35%. Með fjölgun íbúa munu tekjur aukast og auðveldara verður að fara í nauðsynlegar fjárfestingar.

Góður mælikvarði á fjárhagsstöðu sveitarfélagsins er, veltufé frá rekstri, sem segir til um getu sveitarfélagsins til að greiða af lánum og fara í nýjar fjárfestingar. Markmið okkar er að þetta hlutfall sé ekki minna en 10% af tekjum eða um 700 millj. á ári.

.Mynd 1, veltufé frá rekstri árin 2016-2020

Það er ekki mikill áherslumunur milli flokka í Ísafjarðarbæ, ég geri ráð fyrir að allir sem bjóða sig fram ætli að láta gott af sér leiða í þágu samfélagsins.

Kosningarnar 14. maí eru því val um hverjum er best treystandi til að leiða þessa miklu uppbyggingu sem framundan er.

Jóhann Birkir Helgason,

oddviti Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ.

DEILA