þál um eignarhald í fiskeldi: skaðleg fyrir uppbyggingu eldisstarfsemi

Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri.

Lax-inn segir í umsögn um þingsályktunartillögu Höllu Signýju Kristjánsdóttur, alþm og fleiri þingmanna Framsóknarflokksins um eignarhald í laxeldi að tillagan sé skaðleg fyrir ímynd Íslands og uppbyggingu eldisstarfsemi hér á landi. Ekki verði séð að þessar tillögur séu til hagsbóta fyrir uppbyggingu atvinnu- og byggðar samfélaga á landsbyggðinni.

Það er frumkvöðullinn Sigurður Pétursson, sem sendir inn umsögnina fyrir fyrirtæki sitt Lax-inn fræðslumiðstöð. Sigurður var stofnandi Arctic Fish og hefur frá upphafi tekið þátt í uppbyggingu laxeldisins á Vestfjörðum. Hann hefur látið af störfum hjá Arctic Fish og snúið sér að nýsköpunarverkefnum tengdum eldisstarfsemi.

Færeyjar: úr 68 fyrirtækjum í 3

Sigurður Pétursson víkur fyrst að varúðarorðum flutningsmanna gegn samþjöppun eignarhalds og bendir á að vegna eðli þessara þessarar starfsemi þ.e.a.s. að gæta að heilbrigði eldissvæða sem og almennt stærðarhagkvæmni leiði að fyrirtækjum fækki og að þau stækki. Bendir hann á að fyrir aldarfjórðungi hafi verið 68 fyrirtæki í eldinu í Færeyjum. Ekki náðist samstaða um smitvarnir og uppbyggingu. Menn sáu að það gekki ekki og 10 árum síðar hafi fyrirtækjum fækkað um helming. Veirusýking sem þá kom upp varð til þess að „algjör uppstokkun varð á uppbyggingu eldisins þar að kröfu eldisfyrirtækjanna sjálfra og eftir stendur að uppvöxtur hófst aftur með samhæfðum aðgerðum, kynslóðaskiptingum, aðskilnaði eldissvæða og stærðarhagkvæmni þessarra þriggja félaga sem þar starfa í dag skiluðu met framleiðslu á síðasta ári.“

Flutningsmenn þál vilja athuga takmarkanir á erlendu eignarhaldi laxeldisfyrirtækja og vísa til Færeyja þar sem er að finna ákvæði sem banna það að lögaðili eignist meira en helming útgefinna laxeldisleyfa.

Um þetta segir í umsögn Sigurðar Péturssonar: „íslenskt eldi er í samkeppni á alþjóðamarkaði þar sem innanlandsmarkaður er mjög lítill. Fiskeldi, eins og aðrar starfsgreinar hér á landi, starfa undir samkeppnislögum, sem ætlað er að tryggja virka samkeppni í viðskiptum.“ Hann minnir á að fiskeldi falli undir samninginn um evrópska efnahagssvæðið,EES, og því sé öllum innan svæðisins, þ.e. frá löndum ESB, Noregi og Liechtenstein heimilt að stunda þessa starfsemi hér á landi. óheimilt sé að takmarka rétt erlendra aðila frá EES umfram innlenda aðila. Verði slíkt gert sé líklegt að dómstólar dæmi slíkar skorður ólögmætar og íslenska ríkið bótaskylt. Öðru máli gegni um Færeyjar , þar sem eyjarnar sé ekki aðilar að EES og Færeyingar ekki bundnir af samningnum.

Landsbyggðaratvinnugrein

Sigurður gefur tillögunni ekki háa einkunn út frá hagsmunum landsbyggðarinnar:

„Fáar atvinnugreinar hafa í seinni tíð gert meira fyrir uppbyggingu atvinnustarfsemi í dreifðum byggðum landsins en laxeldi. Á síðasta áratug hefur fjöldi starfsmanna í fiskeldi þrefaldast og yfir 80% þeirra starfa eru á landsbyggðinni. Mér þykir því sæta furðu, svo ekki sé meira sagt, að þingmenn landsbyggðarinnar, láti hafa sig út í að setja saman þingsályktunartexta eins og þennan.“

Hann segir fráleitt að setja sérreglur um erlent eignarhald á þessa atvinnustarfsemi en segist fagna umræðu um dreifingu eignarhalds sem hægt er að stuðla að með frekari þátttöku íslenskra fjárfesta en varasamt að takmarka hagræðingu sem og smitvarnir sem almennt styðja við frekari vöxt fiskeldis.

Umsögninni lýkur Sigurður með þessum orðum:

„Í öllu falli stuðlar þessi tillaga ekki að styrkingu á byggð og atvinnustarsemi og styrkingu samfélaga á landsbyggðinni – þvert á móti! Kemur verulega á óvart þar sem ég tel að Alþingi sem og þá sérstaklega fulltrúar landsbyggðarinnar eiga að gæta sérstaklega að þessum þætti.“

DEILA