Reykhólar: vindorkuveri hafnað í aðalskipulag – 17 milljarða kr. framkvæmd

Innviðaráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson hefur hafnað því að vindorkuver í Garpsdal verði sett í aðalskipulag sveitarfélagsins. Staðfesti ráðherrann ákvörðun Skipulagsstofnunar.

Um er að ræða 4,37 ferkm svæði í landi Garpsdals þar reisa á 21 vindmyllu allt að hæð 158 metra hver með um 8 MW uppsettu afl. Gert er ráð fyrir 6 km jarðstreng frá vindmyllunum að spennistöð.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps lýsir yfir vonbrigðum með niðurstöðu og ákvörðun ráðherra í bókun á síðasta fundi sínum. Segir í bókuninni að „Ljóst er að um mikla hagsmuni er að ræða fyrir Reykhólahrepp og Vestfirði alla, enda er um að ræða rúmlega 17 milljarða króna framkvæmd sem styður við raforkuöryggi og afhendingargetu raforku á Vestfjörðum. Sveitarstjórn Reykhólahrepps skorar á Alþingi að taka þennan virkjunarkost inn í þriðja áfanga rammaáætlunar.“

Ingibjörg Erlingsdóttir sveitarstjóri segir að sveitarstjórnin muni við endurskoðun aðalskipulagsins sem er á lokastigi bæta vindorkunni inn en sætta sig við að svæðið fyrir vindorkuverið verði merkt sem varúðarsvæði. Það þýði að ekki verði hægt að ráðast í framkvæmdir fyrr en svæðið verði samþykkt til nýtingar í Rammaáætlun. Fyrir liggur tillaga í Rammaáætlun 4 um að það verði heimilað, en vilji sveitarstjórnar er að nýtingarheimildin verði sett inn í Rammaáætlun 3 sem er til afgreiðslu á Alþingi nú í vor.

Tildrög málsins eru þau að Skipulagsstofnun setti sig á móti ákvörðun sveitarstjórnar Reykhólahrepps sem setti vindorkuver í Garpsdal inn á aðalskipulag. Taldi stofnunin að vindorkuverið samrýmdist ekki lögum um Rammaáætlun og vindorkan væri í biðflokki. Þar með yrði að setja svæði fyrirhugað undir vindorkuver í varúðarflokk ef það ætti að fara inn í aðalskipulag. Sveitarstjórn var ósammála Skipulagsstofnun og sat við sinn keip.

Lögum samkvæmt sendi Skipulagsstofnun þá málið til ráðherra til úrskurðar og liggur hann nú fyrir.

Ráðuneytið setur alvarlega ofan í við Skipulagsstofnun og segir viðbrögð stofnunarinnar ámælisverð, en hún dró í 8 mánuði að senda erindið til ráðuneytisins en átti að gera það innan fjögurra vikna.

DEILA