Minning: Anna Sigríður Skarphéðinsdóttir

F. 5. apríl 1932 – d. 10 apríl 2022.

Jarðsungin frá Fríkirkjunni í Reykjavík, 28.apríl 2022.

               Í Landnámabók segir svo:  “Þuríður sundafyllir og Völu-Steinn, sonur hennar, fór af Hálogalandi til Íslands og nam Bolungarvík og bjuggu í Vatnsnesi.  Hún var því kölluð sundafyllir, að hún seiddi til þess í hallæri á Hálogalandi, að hvert sund var fullt af fiskum.  Hún setti og Kvíarmið á Ísafjaðardjúpi og tók til á kollótta af hverjum bónda í Ísafirði.  Synir Völu-Steins voru þeir Ögmundur og Egill.”

               Bolungarvík skerst vestur í landið milli hárra fjalla.  Traðarhyrna er yst, þá Ernir og innst Óshyrna.  Tveir dalir, Tungudalur og Syðridalur,  ganga fram frá víkinni og er fjallsmúlinn Ernir á milli þeirra.  Hér var löngum fengsælasta veiðistöðin við Ísafjarðardjúp.

               Í bænum heitir gata því glæsta nafni Völusteinsstræti og í húsinu nr. 30 áttu heima skólastjórahjónin, þau Gunnar Ragnarsson frá Lokinhömrum í Arnarfirði og  Reykvíkingurinn Anna Skarphéðinsdóttir, kennari.

               Syðst í kaupstaðnum, norðan við Hólsá, rís vegleg bygging Grunnskólans.

Húsvörðurinn, Eggert sæli Haraldsson, loflegrar minningar, var alltaf í góðu skapi, bauð í nefið og gerði að gamni sínu. Út um suðurglugga kennarastofunnar uppi á lofti blasir við fögur útsýn;  þar getur að líta hið forna höfuðból, Hól í Bolungarvík, og sjálfa Hólskirkju, þar sem Guð á heima.  Skrifstofa skólastjóra var hið næsta kennarastofunni og vestan við hana geymsla með ýmsum fræðslugögnum, er tíðkuðust áður en hin ævintýralega tækni nútímans kom til sögunnar; þarna voru t.d. stóreflis landakort af veröldinni og spritt-fjölritari.

               Þau hjón, Anna og Gunnar, voru með afbrigðum samviskusamir og vandaðir kennarar, og mun síst að taka ofdjúpt í árinni þótt sagt sé, að hinn andlegi þáttur í hreysti Bolvíkinga og geðheilbrigði hafi verið í svo styrkum höndum, sem nokkur  kostur var, þegar Gunnar Ragnarsson var þar skólastjóri, góðklerkurinn síra Þorbergur Kristjánsson sóknarprestur og skólastjóri Tónlistarskólans mætismaðurinn Ólafur Kristjánsson, síðar bæjarstjóri.

               Anna Skarphéðinsdóttir hafði vakandi áhuga á íslenskri tungu, var  ágætavel máli farin og fjöllesin í íslenskum bókmenntum að fornu og nýju.  Nemendur 9. bekkjar lásu Gísla sögu Súrssonar við vendilega og hnitmiðaða leiðsögn hennar.  Ganga þeirra þriggja í Haukadal í Dýrafirði, Súrssona á Hóli og Þorgríms á Sæbóli, og hins fjórða, Vésteins á Hesti í Önundarfirði, í fóstbræðralag, fór út um þúfur – og dró það dilk á eftir sér heldur en ekki. 

Þorkell Súrsson verður síðan áheyrsla samræðna þeirra svilkvennanna, Ásgerðar Þorbjarnardóttur, konu sinnar, og Auðar Vésteinsdóttur, konu Gísla Súrssonar, í dyngju þeirra á Hóli.  Auður stríðir Ásgerði með því, að hún leggi hug á Véstein, bróður hennar.  Ásgerður svarar með því að væna Auði um að samdráttur hafi verið með þeim Þorgrími goða Þorsteinssyni þorskabíts, áður en hún átti Gísla.

Þorkell einfaldlega brjálast, og Auður hefur lög að mæla, þegar niðurstaða hennar verður þessi:  “Oft stendur illt af kvennahjali og má það vera að hér hjótist af í verra lagi.”

Í hugann koma ummæli Snorra fráafa okkar Sturlusonar, um gullöldina, sem spilltist af tilkomu kvennanna.

Anna var stórvel gefin, fríð sýnum, háttvís, þó einörð, hyggin og hófsöm, þægileg viðurmælis, ávallt brosmild, ávarpsgóð og veitul heim að sækja.  Guð verndi og styrki ástvini hennar. Guð blessi minningu sómakonunnar Önnu Sigríðar Skarphéðinsdóttur.

Gunnar Björnsson

pastor emeritus

DEILA