Málefni fatlað fólks sett á dagskrá

Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp buðu til opins fundar með frambjóðendum til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar síðasta vetrardag.

Frambjóðendur Í-listans voru að sjálfsögðu mættir og fengu tækifæri til að kynna áherslur sínar. Á fundinum fengu frambjóðendur afhenta áskorun frá Styrktarfélagi fatlaðra á Vestfjörðum um að leggja aukna áherslu á málefni fatlaðra og hafa þann málaflokk á stefnuskrá sinni. Styrktarfélagið minnti einnig á að fatlað fólk á að njóta sambærilegra lífskjara og jafnréttis á við aðra þjóðfélagsþegna. Við tökum þessari áskorun af heilum hug.

Útgangspunktur okkar í Í-listanum er sú að allir íbúar sveitarfélagsins njóti jafnra tækifæra og verði virkir þátttakendur í samfélaginu á sem flestum sviðum mannlífsins. Við ætlum að virða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en hann megináhersla hans er að fatlað fólk njóti jafnrar lagalegrar stöðu og mannlegrar reisnar á við ófatlað fólk.

Notendaráði fatlaðs fólks hefur ekki verið komið á í Ísafjarðarbæ þrátt fyrir að það sé orðin skylda hvers sveitarfélags um að koma því á fót. Úr því verðum við að bæta. Hlutverk notendaráðs er að vera formlegur vettvangur samráðs og samstarfs við bæjarstjórn og nefndir og ráð Ísafjarðarbæjar um hagsmuni fatlaðs fólks þar sem fjallað er um þjónustu við fatlað fólk, framkvæmd hennar og þróun.

Aðgengismál í víðum skilningi þarf að gera í gangskör í, á það við um starfrænt aðgengi, aðgengi að stofnunum, byggingum og almenningsrýmum og ákvarðanatöku. Þar er svo sannarlega verk að vinna.

Á fundinum var mikið rætt um atvinnumál og húsnæðismál fatlaðra. Það skiptir máli að Ísafjarðarbær gangi fram með góðu fordæmi og bjóði upp á fjölbreytileg störf sem henta fötluðu fólki.  Varðandi húsnæðismálin ræddu frambjóðendur Í-listans sérstaklega samstarf við óhagnaðardrifin félög t.a.m. Þroskahjálp um að byggja upp húsnæði sem henta fötluðu fólki.

Það er alveg ljóst að þau eru næg verkefnin framundan í þessum málaflokki og við erum tilbúin til verka.

Arna Lára Jónsdóttir bæjarfulltrúi og skipar 5. sæti á lista Í-listans fyrir bæjarstjórnarkosningar 14. maí nk.

DEILA