Ísafjarðarbíó: aðalleikarinn mætir á frumsýningu í kvöld

Íslenska kvikmyndin Berdreymi verður frumsýnd í Ísafjarðarbíó í kvöld. Leikstjóri er Guðmundur Arnar Guðmundsson og aðalleikari er Birgir Dagur Bjarkason.

Birgir kemur vestur og verður viðstaddur frumsýninguna með ættingum sínum. En Birgir er ættaður frá Ísafirði og margir af hans ættingjum búa á Ísafirði, m.a. afi og amma.  Birgir er sonur Hörpu Valdísar Viðarsdóttir, foreldrar Hörpu eru Viðar Örn Sveinbjörnsson og Guðrún Steinþórsdóttir. 

Berdreymi segir frá Adda, unglingsstrák í Reykjavík sem alinn er upp af móður með skyggnigáfu. Einn daginn ákveður Addi að taka eineltisfórnarlamb undir sinn verndarvæng og inn í vinahóp slagsmálahunda. Án eftirlits, leika strákarnir sér að valdbeitingu og ofbeldi en kynnast einnig djúpri vináttu. Þegar hegðun strákana stigmagnast yfir í lífshættulega atburði, fer Addi að upplifa eigin skynjanir. Mun innsæi hans beina vinunum á öruggari braut eða munu strákarnir sökkva lengra inn í heim ofbeldis?

DEILA