Ísafjarðarbær: Hörður fer fram á allt að 14.350.000 kr styrk

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar afgreiddi í gær jákvætt  erindi körfuknattleiksdeildar Vestra um að bæta tap á aðgangseyri um kr. 4.800.000, og fól bæjarstjóra að ganga til samninga við deildina vegna þessa og leggja viðauka fyrir bæjarstjórn til samþykktar.

Þá var einnig lagt fram erindi frá Handknattleiskdeild Harðar um fjárstuðning. Þar er gerð grein fyrir tekjutapi félagsins vegna covid19. Ekki hefur verið unnt að halda handknattleiksmót í 5. fl. í síðustu tvö ár.

Tap félagsins af beinum þátttökugjöldum sl. 2 ár er 11.200.000 milljónir auk styrkja og auglýsinga sem félagið hefur tapað með því að geta ekki haldið mótið. Á umræddu handknattleiksmóti hafa um 400 þátttekndur mætt ár hvert og greitt 13-15 þúsund krónur hver.

Þá skuldar handknattleiksdeildin 3.150.000 kr í ógreidda húsaleigu sem er tilkomin á síðustu 14 mánuðum. Samtals nemur fjárhagsvandi deildarinnar 14.350.000 kr. „sem er von félagsins að bærinn geti aðstoðað að einhverju leyti með. Þó ekki nema væri til jafns við þá deild sem bærinn hefur þegar ákveðið að styrkja.“ eins og segir í erindi deildarinnar til bæjarráðs.

Bæjarráð fól bæjarstjóra að halda áfram að afla upplýsinga um tekjutap annarra félaga á tímabilinu og leggja fyrir bæjarráð.

DEILA