Ísafjarðarbær: 350 m.kr. óvænt útgjöld

Frá fundi bæjarstjórnar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Ársreikningur Ísafjarðarbæjar fyrir 2021 hefur verið lagður fram í bæjarstjórn og fer seinni umræða fram á næsta fundi. Reikningurinn hefur ekki verið gerður almenningi opinber en birt hefur verið minnisblað fjármálastjóra með greiningu á rekstrinum.

Samantekinn ársreikningur sýnir samkvæmt minnisblaðinu rekstrartap upp á 343,3 m.kr. fyrir árið 2021. Fjárhagsáætlun fyrir sama tímabil gerði ráð fyrir rekstrarafgangi upp á 102,6 m.kr. Niðurstaðan er því 446 m.kr. lakari en áætlun ársins gerði ráð fyrir. Um óendurskoðaðar tölur er að ræða og gætu þær tekið breytingum við endurskoðun sem fer nú fram, segir í minnisblaðinu.

Það eru einkum tvær skýringar á þessu mikla fráviki. Annars vegar er breyting lífeyris- og orlofsskuldbindingar sem er 350 m.kr. fram úr áætlun vegna breyttra forsenda, einkum þeim að kostnaður sveitarfélaganna er að aukast við lífeyrisskuldbindingar starfsmanna sem eru í B hluta lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Minnisblað frá sambandi íslenskra sveitarfélaga um þessa hækkun skuldbindinga kom til sveitarfélaga ekki fyrr en í febrúar 2022 og því var ekki gert ráð fyrir hækkuninni í fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir 2021.

Hins vegar lægri söluhagnaður sem er 104 m.kr. undir áætlun. Áætlaður var 30 m.kr. söluhagnaður v. fokhelda íbúða á 4. hæð Hlífar sem ekki eru komnar í sölu og síðan va söluhagnaður hjá Fastís 66 m.kr. undir áætlun, þar sem 12 íbúðir voru seldar en áætlað var að selja 16. Sölutap var svo bókfært vegna sölu síðustu íbúðar Sindragötu 4a og nam það 11 m.kr.

DEILA