Ísafjarðarbær: vilja landfyllingu norðan Fjarðarstrætis

Tekist var á um landfyllingu í Skultulsfirði á síðasta fundi skipulags- og mannvirkjanefndar.

Lögð fram valkostagreining unnin af Verkís ehf. í mars 2022 vegna landfyllinga og íbúðarsvæða í Skutulsfirði. Lagðir fram fjórir valkostir af hálfu Verkís í samræmi við umsögn Skipulagsstofnunar dags. 22. október 2021, þar sem valkostagreining snýr að uppfyllingum við Pollgötu, Mávagarð, Suðurtanga og norðan Eyrar. Hefur verið gerð grein fyrir þessum valkostum hér á bb.is.

Skipulags- og mannvirkjanefndin var sammála um að ámælisvert væri hversu seint í ferlinu kallað var eftir valkostagreiningu og hún lögð fram. Lengri tíma hefði þurft til að meta og kynna þá valkosti sem þar eru lagðir fram segir í bókun nefndarinnar.

Fulltrúar meirihlutaflokkanna í bæjarstjórn B, Anton Helgi Guðjónsson, og fulltrúi D lista, Þóra Marý Arnórsdóttir, leggja til við bæjarstjórn að landfylling norðan Fjarðarstrætis verði fyrir valinu en fulltrúar Í listans, Björgvin Hilmarsson og Jóna Símonía Bjarnadóttir, telja þann kost ekki bestan og vilja skoða málið betur.

Bókun meirihlutans:

Í valkostagreiningu Verkís eru fjögur svæði á Eyrinni skoðuð með tilliti til landfyllingar og íbúðasvæðis. Allir valkostirnir hafa ýmislegt til síns ágætis og enginn verulega neikvæð áhrif, sumir hafa engin áhrif. Uppfylling norðan Eyrarinnar er metinn fýsilegasti kosturinn hvað varðar byggingarland fyrir íbúðarhúsnæði. Landfylling þar hefði mjög jákvæð eða jákvæð áhrif varðandi gæði byggðar, innviði og aðgengi að þjónustu. Nú þegar er sjóvarnargarður meðfram ströndinni norðan Eyrarinnar. Landfylling þar felst í því að færa varnargarðinn utar. Ætla má að sandfjara sem myndast hefur utan við sjóvarnargarðinn muni endurnýja sig og geta áfram nýst til útivistar. Við hönnun á nýjum sjóvarnargarði og landfyllingu er mikilvægt að vandað verði til verka við landmótun og skipulag þar sem tillit verði tekið til svæðisins sem útivistarsvæðis samfara íbúðabyggð.
Frá upphafi 20. aldarinnar hefur Eyrin í Skutulsfirði verið í stöðugri mótun og tekið gríðarlegum breytingum frá upprunalegri lögun. Vöxtur bæjarins hefur kallað á aukið byggingarland og athafnasvæði. Í dag er Eyrin helmingi stærri en hún var fyrir 100 árum. Landfyllingar hafa verið gerðar nánast allan hringinn, mismiklar að umfangi. Engu að síður er landrými á Eyrinni takmarkað og fáar lausar lóðir undir íbúðarhúsnæði. Aukin landfylling á svæðinu skapar tækifæri til uppbyggingar íbúðarhúsnæðis í hjarta bæjarins og svarar eftirspurn eftir slíkum búsetukosti.

Fulltrúar B- og D-lista, leggja til við bæjarstjórn að landfylling norðan Fjarðarstrætis verði fyrir valinu.“

Bókun minnihlutans:

„Skv. valkostagreiningu Verkís liggur fyrir að landfylling norðan Eyrar er ekki besti kosturinn og jafnframt að framboð af íbúðarsvæðum er umfram þörf miðað við vænta fólksfjölgun. Bent er á að sterk viðbrögð hafi komið frá almenningi, að langmestu leyti mjög neikvæð.
Ekki er útséð með að gera þurfi nýja skipulagslýsingu ef breytt er um áherslur og annar og betri kostur valinn. Færa má rök fyrir því að þetta sé liður í þróun verkefnisins eftir að tekið hafi verið tillit til þeirra athugasemda sem frá almenningi og Skipulagsstofnun komu.
Það er því vafasamt að fullyrða að aðeins sé um einn kost að ræða annan en að varpa efninu í hafið „vegna tímaramma verkefnis.“
Skynsamlegast er að skoða vel alla valkosti með framtíðarsýn í huga, styðjast við valkostagreininguna og huga að viðbrögðum almennings en ekki keyra áfram þann kost sem ekki er talinn sá besti.
Ef nýta skal efnið er í öllu falli nærtækara að horfa til betri kosta sem tilgreindir eru í valkostagreiningunni.“

DEILA