Framsókn: hætta á að einn í laxeldi aðili stjórni stórum landssvæðum

Halla Signý Kristjánsdóttir

Sjö þingmenn Framsóknarflokksins undir forystu Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, alþm. hefur flutt tillögu til þingsályktunar á Alþingi um eignarhald í laxeldi. Vilja þingmennirnir að matvælaráðherra skipi starfshóp sem komi fram með tillögur um hvernig takmarka megi samþjöppun eignarhalds á laxeldisleyfum og skoði hvort takmarka eigi eignarhald erlendra aðila á laxeldisleyfum.

Í framsöguræðu sinni sagði Halla Signý m.a. að eignarhald laxeldisfyrirtækja á Íslandi hafi þróast þannig að mikil samþjöppun hefur orðið, sem getur leitt til þess að fáein fyrirtæki verði allsráðandi. Benti hún á að lög um laxeldi setja ekki skorður við framsali á rekstrarleyfumi, en framsal, leiga og veðsetning á rekstrarleyfum er þó háð samþykki Matvælastofnunar.

Einn aðili stjórni stórum landsvæðum

„Hugsanlegt er að einn aðili eignist öll gild rekstrarleyfi og stýri þannig allri framleiðslu á eldisfiski og seiðaeldi í sjó og á landi. Við það skapast sú hætta að einn aðili stjórni stórum landsvæðum með þeim afleiðingum að samfélög, sveitarstjórnir og stjórnvöld eigi meira undir honum en góðu hófi gegnir.“ sagði Halla Signý í framsöguræðu sinni.

 Flutningsmenn benda á að í fiskeldislögum í Færeyjum er að finna ákvæði sem banna það að lögaðili eignist meira en helming útgefinna laxeldisleyfa.

Þá er settur fyrirvari við mikið eignarhald erlendra aðila. Um það sagði Halla Signý: „Laxeldisfyrirtæki á Íslandi eru í meirihlutaeigu útlendinga og útlit fyrir verulega samþjöppun á því eignarhaldi. Í íslenskum lögum er ekki að finna takmarkanir á eignarhaldi erlendra aðila í fiskeldi. Flutningsmenn telja brýnt að athugað verði hvort takmarka beri slíkt eignarhald erlendra aðila.“

Tenging eignarhalds við byggðina

„Flutningsmönnum þykir áríðandi að tryggt verði með lagasetningu að laxeldi á Íslandi verði ekki í eigu örfárra aðila, að fjölbreytni ríki í greininni og að eignarhald verði staðbundið. Miklu varðar að samhliða uppbyggingu laxeldis á Íslandi verði gengið úr skugga um að atvinnulíf og mannlíf á viðkomandi svæðum blómstri. Vissulega er ekki unnt að tryggja með dreifðu eignarhaldi að slátrun eða vinnsla eldisfisks verði á tilteknum stað. Með betri tengingu við byggðina sem í hlut á aukast þó líkur á að ákvarðanir séu teknar með tilliti til hennar.“

Nær allt laxeldi á Vestfjörðum er á höndum Arnarlax og Arctic Sea Farm. Fyrirtækin eru bæði skráð í norsku kauphöllinni og er meirihluti hlutafjár í báðum fyrirtækjum í eigu norskra aðila.

DEILA