Flateyri: vilja nýtt hættumat sem fyrst

Horft niður með eystri leiðigarðinum yfir farveg snjóflóðsins úr Skollahvilft sem rann út höfnina við Flateyri. Sjá má hvernig flóðið hefur brotið gróður þegar það streymdi með garðinum. Ummerki um skriðstefnu flóðsins meðfram toppi garðsins má sjá í snjónum. (Ljósmynd Óliver Hilmarsson)

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur falið bæjarstjóra að þrýsta á Ofanflóðasjóð að gefa út nýtt hættumat fyrir Flateyri eins fljótt og auðið er.

Þetta var ákveðið í framhaldi af kynningu Hjörleifs Finnssonar, verkefnastjóra á Flateyri, um stöðu Flateyrarverkefnisins á vordögum 2022 fyrir bæjarráði í síðustu viku.

Fram kom hjá Hjörleifi að nýtt hættumat hefur ekki verið staðfest af ráðherra og er í gildi bráðabirgðahættumat. Hjörleifur hefur eftir fulltrúa Ofanflóðasjóðs að Hættumatsnefnd verði ekki skipuð fyrr en eftir að framkvæmdum ljúki. Hjörleifur segir á ríðandi að íbúar búi ekki við óvissu í mörg ár.

Meðal tillagna sem fram hafa náð að ganga eru að lögreglumaður eða almannavarnarfulltrúi í umboði lögreglustjóra er staðsettur á Flateyri og einnig hefur skipulag og viðbúnaður almannavarna verið yfirfarið og endurbætt. Hins vegar hafa engar æfingar verið haldnar og kynningarmál eru almennt í miklum ólestri fyrir nýja íbúa og íbúa af erlendu bergi brotnu, segir í kynningu Hjörleifs.

Varðandi samgöngumál þá liggja fyrir tillögur eða valkostir um bættar snjóflóðavarnir á Flateyrarvegi um Hvilftarströnd en ekkert fjármagn til að hrinda þeim í framkvæmd.

DEILA