Flateyri: skábraut fyrir björgunarbát verði byggð í sumar

Í minnisblaði Guðmundar M. Kristjánssonar, hafnarstjóra til hafnarstjórnar Ísafjarðarbæjar kemur fram að nauðsynlegt er að byggja nýja skábraut í sumar austan í Eyraroddanum sunnan við Hjálmshúsið sem er á Hafskipakantinum, þar sem núverandi skábraut er á snjóflóðasvæði.

Bjögunarsveitin á von á að fá nýjan björgunarbát sem er svokallaður léttbotnabátur og byggist notkun hans á því að sjósetja og taka á land við hverja ferð.

Fjármögnun bátsins er lokið og báturinn kominn í framleiðsluferli. Nauðsynlegt er að skábrautin verði byggð í sumar þannig að hún verði tilbúin til notkunar á vetrarmánuðum þegar báturinn verður væntanlegur segir í minnisblaðinu.

Hafnarstjórn fól hafnarstjóra að vinna málið áfram með Vegagerðinni og björgunarsveitinni Sæbjörgu á Flateyri.

DEILA