Eitt sýslumannsembætti á landinu: Vesturbyggð tekur jákvætt í breytingarnar

Ráðhús Vesturbyggðar.

Bæjarráð Vesturbyggðar tekur jákvætt í endurskipulagningu sýslumannsembætta sem miða að því að sameina embætti landsins í eitt. Telur bæjarráðið mikilvægt að efla starfsstöðvar sýslumanns á landsbyggðinni. Að mati bæjarráðs er mikilvægt að efla núverandi þjónustueiningu sýslumanns á Patreksfirði og tekur bæjarráð jákvætt í þær hugmyndir sem tilgreindar eru í erindi dómsmálaráðherra að auka áherslu á stafræna þjónustu og fjölgun verkefna um land allt.

Dómsmálaráðherra hefur kynnt áform sín að sameina öll sýslumannsembættin á landinu í eitt embætti. Í bréfi ráðherra til sveitarstjórnarmanna segir að markmiðið sé að efla núverandi starfsemi embættanna þannig að hver þjónustueining geti veitt þjónustu óháð staðsetningu þjónustuþega eða starfsstöðvar.

Í dag er þjónusta veitt á 27 stöðum á landinu. Tekur ráðherra séstaklega fram að ekki sé ætlunin að færa núverandi starfsemi undir eitt þak á höfuðborgarsvæðinu heldur sé þvert á móti ætlunin að efla núverandi starfsemi og styrkja starfstöðvarnar. Vísar ráðherrann sérstaklega til tillögu A8 í þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036 sem heitir stjórnsýslustöðvar ríkis í héraði.

Bréf dómsmálaráðherra hefur einnig verið lagt fyrir bæjarráð Ísafjarðarbæjar. Bæjarráðið ályktaði ekki um efni bréfins.

DEILA