Áskriftartónleikar Tónlistarfélags Ísfirðinga

Herdís Anna Jónasdóttir, Grímur Helgason og Semion Skigin flytja verk fyrir sópran, klarinett og píanó eftir J. S. Bach, Schubert og Louis Spohr á tónleikum í Hömrum miðvikudaginn 6. apríl kl. 20.00 .

Herdís Anna er fædd og uppalin á Ísafirði, lauk B.Mus.prófi í söng frá Listaháskóla Íslands árið 2003. Hún stundaði framhaldsnám við Hanns Eisler Tónlistarháskólann í Berlín, var eitt ár í óperustúdíóinu í Zürich og svo fastráðin í fimm ár við Ríkisóperuna í Saarbrücken, Þýskalandi.

Herdís Anna hefur tekið þátt í fjölmörgum óperuuppfærslum í Þýskalandi, Íslandi og Sviss. Herdís hlaut Grímuverðlaunin sem Söngkona ársins 2019 fyrir söng sinn hlutverki Víólettu Valery í uppfærslu Íslensku óperunnar á La traviata og var tilnefnd sem Söngkona ársins í klassískum flokki til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2019 og 2020.

Grímur Helgason nam klarinettuleik hjá Sigurði I. Snorrasyni í Tónlistarskólanum í Reykjavík og hjá Einari Jóhannessyni í Listaháshóla Íslands þaðan sem hann útskrifaðist árið 2007. Á násmsárum sínum var Grímur jafnframt einn stofnfélaga Kammersveitarinnar Ísafoldar. Grímur nam ennfremur við Conservatorium van Amsterdam hjá Hans Colbers og lauk þaðan M.Mus prófi vorið 2011.

Grímur hefur komið nokkuð víða við í íslensku tónlistarlífi undanfarin ár sem kammermúsíkant, hljómsveitarspilari, flytjandi nýrrar tónlistar og klarinettukennari. Meðal hljómsveita og tónlistarhópa sem hann hefur leikið með undanfarin ár má nefna Sinfóníuhljómsveit Íslands (hvar hann er staðgengill leiðara), Caput, Stirni ensemble, Kúbus og Kammersveit Reykjavíkur auk samstarfs við fjölbreyttan hóp tónskálda og framsækinna tónlistarmanna.

Semion Skigin píanóleikari fæddist í Leníngrad og lærði þar við tónlistarháskólann. Árið 1972, kom hann fram með Fílharmóníunni í Leníngrad og vann þremur árum síðar fyrstu verðlaun í Alþjóðlegu meðleikarakeppninni í Ríó de Janeiro. Semion er vel metinn kennari og var gestaprófessor 1978 til 1981 við Carl Maria von Weber Tónlistarháskólann í Dresden.

Síðan 1990 hefur hann verið prófessor í meðleik fyrir söngvara við Tónlistarháskólann Hanns Eisler í Berlín. Einnig kennir hann reglulega masterklassa við háskóla í Þýskalandi, Hollandi, Bandaríkjunum og Rússlandi. Hann situr í dómnefnd í fjöldamörgum alþjóðlegum keppnum og hátíðum, hann er listrænn stjórnandi ýmissa hátíða og tónleikaraða. Semion Skigin er einn ástsælasti meðleikari á meðal söngvara í dag og má heyra hann víða um heim, með til dæmis Ekaterinu Semenchuk, Evelinu Dobracevu, Olaf Bär, Cheryl Studer, Robert Holl, Olgu Borodinu, og Sergei Leiferkus.

Skigin var meðal helstu kennara Herdísar er hún var við nám í Berlín, en þau hafa áður haldið saman tónleika á Ísafirði undir yfirskriftinni Blómatónar

DEILA