Ársskýrsla Vestra fyrir 2021: gróska í öllum deildum félagsins

Ársskýrsla Vestra fyrir 2021 hefur verið lögð fram. Gerð er grein fyrir starfsemi félagsins á liðnu ári og fjórum deildum félagsins, hjólreiðadeild, körfuknattleiksdeild, knattspyrnudeild og blakdeild.

Þrátt fyrir covid19 var gróska í öllum deildum innan félagsins þar sem iðkendum fjölgaði og eftirtektarverður árangur náðist þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Má þar helst nefna meistaraflokk karla í körfunni sem sigraði úrslitakeppni KKÍ í 1. deild í júní 2021 og tryggði liðið sér sæti í Subway deild karla.
Meistaraflokkur karla í blaki átti líka gott tímabil í úrvalsdeild þar sem liðið komst í undanúrslit bæði í deild og bikar. Lið meistaraflokks karla í knattspyrnu endaði í 5. sæti Lengjudeildarinnar og fór alla leið í undanúrslit í Mjólkurbikarnum.

Resktur félagsins var með veltu upp á næstum um 170 m.kr., þar af var knattspyrnudeildin með um 110 m.kr. veltu.

Allar deildir, að hjólreiðadeildinni undanskilinni, voru reknar með tapi árið 2021 og samanlagt tap ársins var upp á tæpar 10 m.kr.

Sérstaklega er minnst á að húsleigan er þungur baggi í rekstri deildanna og hafa skuldir safnast upp gagnvart sveitarfélaginu frá því að fyrirkomulagi innheimtunar var breytt sumarið 2021.
„Er ljóst að deildirnar þurfa að taka húsnæðismálin til gagngerrar endurskoðunar með það að markmiði að lækka þennan kostnað í rekstrinum“ segir í ársskýrslunni.

Fjölnota íþróttahús á Torfnesi fær mikið pláss í skýrslunni og greint frá framgangi málsins og því að undirrituð hefur verið viljayfirlýsing íþróttafélagsins Vestra og Ísafjarðarbæjar þar sem Vestri lýsir yfir vilja sínum til að taka yfir heildarumsjón og ábyrgð á verkefninu. Í því felst hönnun, framkvæmd og fjármögnun á byggingu fjölnota íþróttahús.

Samkvæmt viljayfirlýsingunni skal miða við að heildarkostnaður við verkið verði á bilinu 550-650 milljónir króna. Kostnaður við nauðsynlega undirbúningsvinnu greiðist af sjálfsaflafé/ sjálfboðavinnu og styrkjum sem Vestri
aflar og/eða Ísafjarðarbæ en sá kostnaður verður hluti af heildarkostnaði við framkvæmdina og þarf að samþykkjast fyrirfram af Ísafjarðarbæ.

Stjórn Vestra skipa Guðfinna Hreiðarsdóttir, formaður, Guðni Guðnason, gjaldkeri, Sólrún Geirsdóttir, ritari, Hjalti Karlsson, Jóna Lind Kristjánsdóttir, Hlynur Reynisson, Gísli Jón Hjaltason og til vara Jónas Gunnlaugsson og
Þorsteinn Þráinsson.

DEILA