Að spila sterka vörn er oft besti leikurinn

Eitt af því skemmtilegasta sem pólitíkus getur gert er að vígja ný verkefni. Það er spennandi að skapa eitthvað nýtt, setja mark sitt á sveitafélagið og geta bent á eitthvað einstakt til að segja „Þetta gerði ég.“ Því er ekki óeðlilegt að kosningar snúast oft um að snúa vörn í sókn, fara í nýjar framkvæmdir og lofa stórum og áberandi breytingum. En oft virðist gleymast að spila sterka vörn og nýjar framkvæmdir ná ekki áætluðum árangri. Viðhaldsleysi hefur orðið til þess að eignir lenda meðal annars í myglu og rakaskemmdum. Við þurfum að sjá vel um það sem við eigum áður en við hlaupum af stað í næstu framkvæmd. Auðvitað þýðir það ekki fullt stopp á ný framkvæmdir því margar eru þarfar. Við ættum að geta gengið og tuggið tyggjó á sama tíma, en það er nauðsynlegt að setja jafn mikinn metnað í viðhald og við setjum í nýjar framkvæmdir.

Þegar það á að skera niður er freistandi að byrja á viðhaldskostnað; fresta því um eitt ár að skipta um lekandi þak svo að fjárhagsárið líti betur út, en þetta er ekki sparnaður. Hér er aðeins verið að færa kostnað frá einu ári yfir á annað. Í mörgum tilfellum verður kosntaður aðeins hærri útaf aðgerðarleysi. Því fyrr sem hægt er að grípa inn í því ódýrara er að gera við. Því er miklvægt að hvetja starfsfólk og íbúa að láta vita ef það er þörf á viðhaldi og að stjórnsýslan taki þeim ábendingum alvarlega.

Með þeim upplýsingum sem fylgja þessum ábendingum eru líkur á að verðmat fjölmargra eigna sem bærinn á muni lækka. Ég er hræddur um að það leynist mikil viðhaldsþörf sem hefur ekki verið tekin út. Þetta gæti sett bókhaldið í ákveðið uppnám, hlutfall skulda miðað við eignir myndi hækka og bærinn væri á blaði verr staddur. Þetta væri hinsvegar einfaldlega að horfast í augu við raunveruleikann og hvað sem það hefði í för með sér. Þetta er ekki verkefni sem við ættum að setja á hakan því það mun alltaf koma í bakið á okkur. Tökum jafnt og þétt á viðhaldinu. Traust vörn getur gert gæfu muninn.

Pétur Óli Þorvaldsson
Oddviti Pírata í Ísafjarðarbæ
Stað, Súgandafirði

DEILA