Á páskum fögnum við sigri lífsins

Snjóa leysir, krókusarnir kíkja upp úr moldinni eins í fyrra og hittifyrra og til margra ára.  Söngur fuglanna heyrist í fjarska.  Vorboðarnir eru komnir til að vera og gleðja okkur þar til þeir leggjast í dvala í haust eða fljúga til fjarlægra landa. 

Við þekkjum taktfastan gang árstíðanna og ársins.  Kirkjan hefur líka sinn taktfasta gang.  Kirkjuárið hefst fyrsta sunnudag í aðventu og skiptist í tímabil, hátíðartímabil og hátíðarlaust tímabil.  Nú fögnum við annarri hátíð kirkjuársins af þremur, þeirri sem er undirstaða alls sem er í kirkjunni.  Án upprisu Jesú væri engin kristin trú og engin kristin kirkja.  Páll postuli orðar þetta svo í fyrra bréfi sínu til Korintumanna:  „ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun okkar, ónýt líka trú ykkar.“ 

Boðskapur upprisunnar er skýr.  Á páskum fögnum við sigri lífsins.  Dauðinn hafði ekki síðasta orðið.  Ofbeldið sigraði ekki.  Hæðnisglósur viðstaddra misstu marks.  Niðurlægingin bugaði ekki.  Kristinn upprisuboðskapur segir okkur að allt verði nýtt.  Að alltaf sé von í öllum aðstæðum.  Að við fáum hlutdeild í upprisu Krists, því hann hefur tekið okkur að sér, í lífi og í dauða. “Ég lifi og þér munuð lifa“ sagði hann við hrygga vini sína.  Þessi boðskapur huggar og veitir von þeim er missir.  

Páskarnir og boðskapur þeirra færir gleði inn í mannlegt líf og samfélag.  Birta páskasólarinnar yljar og lýsir inn í allar aðstæður lífsins.  Margir eru nú á faraldsfæti, á skíðum, í sumarbústað, á meðan aðrir halda sig heima og njóta frídaganna sem gefast um hátíðina. Hið þéttriðna net kirkna og kirkjunnar þjóna um land allt tryggir að hvar sem við erum og hvert sem við förum eða förum ekki er upprisuboðskapurinn fluttur í næsta nágrenni. Boðskapurinn sem vinkonur Jesú fluttu fyrstar allra í heimi hér til lærisveinanna. Þeim var trúað fyrir því og vegna þeirra barst boðskapurinn um víða veröld og hefur haft mótandi áhrif á einstaklinga og samfélög.  

Þær konur, María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme hafa verið kristnum konum heimsins á öllum tímum fyrirmynd og hvatning til að boða kristna trú í orði og í verki. Feta þannig í fótspor Jesú, koma fram við aðra eins og hann gerði, lækna, hvetja, lifa í frelsi og elska Guð og náungann eins og sjálfan sig.  

Undanfarnar vikur hefur flóttafólk frá Ukrainu leitað skjóls hér á landi. Fjölmargir sjálfboðaliðar hafa tekið á móti þeim og lagt þeim lið við að koma sér fyrir í nýju landi með öllu sem því fylgir. Fæði, klæði og húsnæði eru grunnþarfir en fleira þarf til að fóta sig í nýju landi. Komið hefur verið upp leikskóla fyrir börnin og það á fleirum en einum stað. Þar hefur þjóðkirkjan lagt lið sem og á fleiri sviðum því hlutverk kirkjunnar er ekki eingöngu að boða trú með orðum heldur einnig að sýna trú í verki.  

Eins og lífið í náttúrunni kviknar á vorin og verður okkur sýnilegt í litglöðu blómunum sem brjótast upp úr moldinni og grasinu sem grænkar, færa páskarnir okkur nýtt líf.  Líf í gleði.  Líf í von.  Líf í trú.  Líf í kærleika. 

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.

DEILA