70 ár síðan þrír Ísfirðingar kepptu á vetrarólympíuleikunum í Osló

Gunnar Pétursson er Ísfirðingum að góðu kunnur, ekki síst vegna afreka sinna í skíðaíþróttinni en hann var á sínum tíma einn allra besti skíðagöngumaður landsins og vann Íslandsmeistaratitla bæði í skíðagöngu og norrænni tvíkeppni. Gunnar var virkur í íþróttinni langt fram eftir aldri, var fastagestur á Seljalandsdal flesta daga vetrarins og tók þátt í mörg hundruð skíðamótum á ferlinum. Hann keppti til dæmis 46 sinnum í Fossavatnsgöngunni, fyrst árið 1955 og síðast árið 2012, þegar hann var orðinn 82 ára gamall.

Í ár eru liðin 70 ár síðan Gunnar keppti á Vetrarólympíuleikunum í Osló, en það var í fyrsta sinn sem Íslendingar tóku þátt í skíðagöngu á Ólympíuleikum. Auk Gunnars kepptu tveir Ísfirðingar á leikunum, þeir Ebenezer Þórarinsson og Oddur Pétursson, bróðir Gunnars. Einnig voru þrír Þingeyingar í þessari vösku sveit. Þeir Gunnar, Oddur og Ebenezer ræddu um ferðina á Ólympíuleikana í viðtalið við Skíðablaðið árið 2001. Þar rifjuðu þeir upp strangar æfingar fyrir leikana, en vegna snjóleysis þurftu þeir að stunda hlaup og fjallgöngur allt haustið og komust ekki nema einu sinni á skíði fyrir brottförina. Það var í Hljómskálagarðinum í Reykjavík daginn fyrir flugið út.  Aðstæður voru þó heppilegri í Noregi, en þangað mættu þeir mánuði fyrir leikana og æfðu „eins og villimenn“ þar til keppnin hófst. Ekki var Gunnar neitt sérlega hrifinn af einkennisfatnaði íslenska keppnisliðsins og í áðurnefndu viðtali segir hann: „Þetta var herfilega ljótt maður.  Stakkarnir grænir, buxurnar bláar og húfurnar bláar líka … keppnisgallinn var svo úr bláu lérefti, hann var ágætur.“

Á þessum árum var ekki farið að nota snjótroðara á skíðasvæðum en í staðinn var norskur herflokkur látinn fóttroða keppnisbrautina í mjóum trjágöngum. Sumar brekkurnar voru svo ógnar brattar að ekki var hægt að komast upp þær nema að hafa skíðin þversum á brautina og leiðin niður var oft háskaleg með kröppum beygjum inn á milli trjánna. Það urðu líka óvenju margir að hætta keppni sökum óhappa á þessum leikum.

Gunnar keppti í tveimur greinum á Ólympíuleikunum. Fyrst í 18 km göngu þar sem hann varð fremstur Íslendinganna, í 32. sæti af 80 keppendum, og síðan í boðgöngu þar sem íslenska sveitin endaði í 9. sæti. Í framhaldi af Ólympíuleikunum bauð sænska skíðasambandið þeim félögum í keppnisferð til Svíþjóðar. Oddur þurfti að afþakka það boð vegna meiðsla sem hann varð fyrir í 18 km göngunni á leikunum, en í hans stað bættist Sigurjón Halldórsson í Tungu í hópinn. Í þessari ferð tóku þeir m.a. þátt í hinni 90 km löngu Vasagöngu og urðu þar með fyrstir Íslendinga til að taka þátt í þessari frægustu skíðagöngukeppni heims. Gunnar átti eftir að fara fjórum sinnum í viðbót í Vasagönguna, árin 1983, 1994, 1999 og svo árið 2002, en þá var hann orðinn rúmlega sjötugur og fagnaði því að liðin voru 50 ár frá því að hann keppti á Ólympíuleikunum og gekk Vasagönguna í fyrsta sinn. 

Þann 31. mars síðastliðinn fagnaði Gunnar 92 ára afmæli sínu með nánust fjölskyldu. Skíðagöngumaðurinn Snorri Einarsson, sem keppti á Vetrarólympíuleikunum í Bejing fyrr í vetur, mætti einnig til að heilsa upp á Gunnar og var meðfylgjandi mynd tekið við það tækifæri.

Gunnar Pétursson og Snorri Einarsson.

DEILA