Vestri vill viljayfirlýsingu um fjölnota íþróttahús

Hugmynd að fjölnota íþróttahúsi.

Íþróttafélagið Vestri hefur óskað eftir viðræðum við Ísafjarðarbæ um byggingu fjölnota íþróttahúss á Ísafirði. Fyrsta skrefið myndi vera undirritun viljayfirlýsingar beggja aðila þar sem verkefnið yrði rammað inn og sett upp tímalína fyrir framvindu
verkefnisins ásamt kostnaðarviðmiði.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tók á mánudaginn vel í erindið og fól bæjarstjóra að gera drög að viljayfirlýsingu Ísafjarðarbæjar og Vestra um byggingu fjölnota íþróttahúss, og leggja fyrir bæjarstjórn til samþykktar.

Næsti bæjarstjórnarfundur verður á morgun, fimmtudag.

Vestri vill sjá um framkvæmdina

Íþróttafélagið Vestri hefur skoðað, með aðstoð sérfræðinga, hvaða leiðir eru færar til að koma fjölnota íþróttahúsinu upp á næstu misserum. Í erindi Vestra segir. „Við höfum myndað teymi sérfræðinga sem hafa skoðað þessi mál og sannfært okkur um að hægt er að koma húsinu upp fyrir upphæð sem er á sama róli og Ísafjarðarbær hefur áætlað að teknu tilliti til verðbreytinga. Við höfum einnig kannað þá leið að Vestri sjái um þessa framkvæmd og fjármögnun hennar gegn því að Ísafjarðarbær geri við okkur leigusamning um afnot af húsinu í ákveðinn árafjölda og eignist húsið að því loknu.“

Tvisvar á kjörtímabilinu hefur verkið verið boðið út en það hefur ekki skilað tilætluðum árangri. Í fyrra útboðinu kom ekkert tilboð og í síðara útboðinu kom eitt ógilt tilboð. Hafa kostnaðarhugmyndir bæjarstjórnar ekki verið raunhæfar en Vestri telur nú að athuguðu máli að hægt sé að byggja húsið fyrir upphaflegar hugmyndir um kostnað sem voru um 450 m.kr.

DEILA