Vestri: 11,1 m.kr. tap vegna covid19

Tekjutap körfuknattleiksdeildar Vestra á síðasta kppnistímabili 2021-22 varð kr.14.300.000 og ástæðan fyrir tapinu var tengd hörðum samkomutakmörkunum yfir vetrartímann í heimsfaraldrinum. Ekki tókst að halda stórar fjáraflanir svo sem körfuboltabúðir Vestra eða að selja inn á körfuboltaleiki. Í upplýsingum frá kkd. Vestra segir að stjórninni hafi tekist
að hagræða um kr.3.200.000 á tímabilinu með því að draga úr launakostnaði, húsaleigu og ferðakostnaði, svo eitthvað sé nefnt. Eftir stendur útistandandi skuld upp á kr.11.100.000.

Þetta kemur fram í erindi deildarinnar til Ísafjarðarbæjar. Þar er sótt um aðstoð bæjarins til þess að leysa út þessum fjárhagserfiðleikum. Bæjarráð tók málið fyrir á mánudaginn þar var kynnt athugun á því hvað önnur sveitarfélög hefði gert. Í minnisblaði sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs kemur fram að Sveitarfélagið Árborg gerði nýlega samkomulag við handknattleiksdeild UMF Selfoss en tap liðsins á árinu 2021 nam kr.16.000.000. Árborg ætlar að veita handboltadeildinni sérstakan styrk að fjárhæð kr. 21.000.000 en á móti afsalar UMF Selfoss ákveðnum styrkjum frá sveitarfélaginu á tímabilinu
2023-2027.
Reykjanesbær hefur einnig ákveðið að styrkja íþróttalið innan síns sveitarfélags vegna rekstrartaps, nánar tiltekið körfuknattleiksdeildir Keflavíkur og Njarðvíkur. Sitthvort liðið fær kr.7.500.000 í styrk til móts við tekjufall vegna COVID-19.

4,8 m.kr. styrkur

Bæjarráðið tók jákvætt í erindi körfuknattleiksdeildar Vestra um að bæta tap á aðgangseyri um kr. 4.800.000, og felur bæjarstjóra að ganga til samninga við deildina vegna þessa og leggja viðauka fyrir bæjarstjórn til samþykktar.

Bæjarstjóra var jafnframt falið að fá upplýsingar um tekjutap annarra félaga á tímabilinu.

DEILA