Vegleysan milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar

Úlfar Thoroddsen.

Um nokkurn tíma hefur ítrekað verið vakin athygli á útjöskuðum og hættulegum vegi milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar. Vegi sem í grunninn byggist á allt að 60 ára undirstöðu, vegi sem nú ber alls ekki þá umferð sem honum er ætlað. Sitthvað hefur verið gert til að bæta um. Holur malarfylltar og olíumöl dregin yfir verstu svöðin sem hafa myndast þegar frost hefur verið að fara úr undirbyggingunni.

Senn fer vonandi að vora og frost að fara úr jörðu. Veikustu vegarkaflarnir milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar fara í graut á ný. Olíuborið yfirborðið molnar upp, djúpar holur með hvössum brúnum myndast og valda skemmdum á bílum og verulegri hættu fyrir vegfarendur.

Það ber að geta þess að vegarkaflinn frá Keldeyrará að Hálsgötu eða um  innsta hluta og botn Tálknafjarðar var endurbyggður á liðnu ári og ný brú byggð yfir Norðurbotná. Góð samgöngubót en á stuttum kafla.

Nýlega bitist frétt um það í BB að búið sé að hanna endurbyggingu 5 km á verstu köflunum milli fyrrgreindra fjarða. Framkvæmdin strandar samt á fjármögnun. Greinarritari spurðist fyrir um áætlaðan kostnað og  svarið frá Pálma Þór Sævarssyni svæðisstjóra Vegagerðarinnar á vestursvæði  var þetta:

Það er áætlað að fyrsti áfangi kosti ríflega 450 m.kr þá erum við að horfa á að endurbyggja núverandi veg sem er verst farinn og breikka hann. Þar sem núverandi uppbygging bíður ekki uppá það að hann sé styrktur með öðru móti. 

Peningar í þetta þurfa að koma öllu jafna úr viðhaldi eða af samgönguáætlun. Viðhaldssjóðurinn okkar er því miður ekki það stór að þetta rúmist innan hans eins og er.

Verkefnið framundan fyrir allt ráða- og áhrifafólk, ráðherra samgöngumála, alþingismenn kjördæmisins og  viðkomandi sveitarstjórnir er  að leggjast á eitt og tryggja fjármögnun án tafa til að koma framkvæmdinni í gang. Endurbætur þola enga bið.

Sú skýring er hriplek að einhverjar innri reglur eða  eða fjárlög ársins 2022 hindri fjármögnun. Það eru nægir „ómarkaðir“ peningar til í ríkiskerfinu sem má ráðstafa í þetta verkefni. Það þarf aðeins viljann til að losa um þá. Viðkomandi stjórnvöld og kjörnir fulltrúar á Alþingi eru til þess að leysa málið.

Þau geta brugðist við eins og góðbóndi nokkur hér vestra gerði þegar kaupfélagsstjórinn spurði hvernig ætti að greiða úttektina:  „Aurarnir eru í Selabuddunni“.

Patreksfirði 28. febrúar 2022

Úlfar B Thoroddsen

 Annt um viðgang og velgengni Vestfirskra byggða.

DEILA