Tindátar fá styrk

Kómedíuleikhúsið, atvinnuleikhús Vestfjarða, hefur fengið rausnarlegan styrk frá Sviðslistaráði. Sjóðurinn úthlutar einu sinni á ári styrkjum til atvinnuleikhópa og var úthlutunin tilkynnt í fyrradag. Kómedíuleikhúsið fékk styrk að upphæð 8.420.000 kr. til setja upp leikritið Tindátarnir.

Einsog svo oft áður er efni verkefna Kómedíuleikhússins sótt í hinn gjöfula vestfirska sagnaarf. Segja má að góðkunningi leikhússins sé hér á ferðinni því efnið er úr smiðju vestfirska ljóðskáldsins Steins Steinarrs. Kómedíuleikhúsið hefur áður sett upp m.a. einleik um ævi skáldsins og svo barnaleiksýninguna Halla. Ljóðabók Steins, Tindátarnir, með myndum eftir Nínu Tryggvadóttur er ein ahrifamesta ljóðabók síðustu aldar. Hér fjalla þau um seinni heimstyrjöldina og spá fyrir um endalokin. Því bókin Tindátarnir kom út 1943 og tveimur árum síðar lauk stríðinu. Segjum svo að listin geti ekki séð fram í tímann. Steinn kveður að vanda hressilega og með sínum svarta húmor. Það er einmitt þá sem sagan hittir beint í mark og nær beint í hjarta njótandans. Ljóðsagan Tindátarnir á sannlega enn og jafnvel ekki síður erindi til okkar í dag.

Elfar Logi Hannesson.

Undirbúningur fyrir uppsetningu á Tindátunum hefst nú þegar en stefnt er að frumsýningu á næsta leikári í Kómedíuleikhúsinu Haukadal. Fjöldi listamanna kemur að sýningunni. Þór Túliníus leikstýrir, Elfar Logi Hannesson er höfundur leikgerðar og leikari, Soffía Björg Óðinsdóttir semur tónlist og Marsbil G. Kristjánsdóttir hannar leikmynd og brúður. Að loknum sýningum í Haukadal er stefnt á leikferð um landið með Tindáta Steins Steinarrs.

DEILA