Þau taka Vestfirði

Hljómsveitin ÞAU, sem er skipuð söng – og leikkonunni Rakel Björk Björnsdóttur og tónlistarmanninum Garðari Borgþórssyni, gáfu út 12 laga plötuna „ÞAU taka Vestfirði“ á Spotify í gær, 11. mars. Platan inniheldur frumsamin lög við ljóð eftir vestfirsk skáld.

Lögin og ljóðin veita innsýn í sögu, menningu og líf fólks í landinu okkar á ólíkum tímum. Hér sameinast gamlar raddir og ungar í blóma. Fortíð hittir nútíð og ljóðin öðlast framhaldslíf í vönduðum tónlistarflutningi.  Höfundar ljóðanna eru m.a. Guðmundur Ingi Kristjánsson, Eiríkur Örn Norðdahl, Halla skáldkona á Laugabóli, Jakobína Sigurðardóttir, Herdís og Ólína Andrésardætur, Jón úr Vör, Ólína Þorvarðardóttir og Steinn Steinarr.

Hljómsveitin var á tónleikaferðalagi um Vestfirði síðastliðið sumar og á plötunni nú er efni frá því ferðalagi. Með þeim á tónleikaferðalaginu var Ingimar Ingimarsson organisti í Reykhólasveit.

Í kynningarefni segir að lögin séu „flutt í eins konar sögumannsstíl þar sem saga ljóðsins fleytir lögunum áfram. Allt
undirspil er flutt lifandi á staðnum. Á milli laga fá áhorfendur betri innsýn í heim ljóðanna þar sem Rakel segir stuttar sögur af ljóðunum eða skáldunum, sem gerir stundina jafnframt persónulegri. Samtalið við áhorfendur er áhugavert rannsóknarefni sem hægt er að þróa áfram og tengja dýpra inn í leikhúsheiminn.“

Hér er linkur á plötuna:https://open.spotify.com/album/2BCOHezuDqhv5IHuIkTzAh?si=nJyvqYsXSViUD6s1bjuu2Q

DEILA