Sveitarstjórnir fordæma innrásina í Úkraínu

Bæjarstjórn Bolungavíkur og Sveitarstjórn Strandabyggðar hafa báðar lýst yfir stuðningi við yfirlýsingu Evrópusamtaka
sveitarfélaga, CEMR, um að evrópskir sveitarstjórnarmenn fordæmi brot á sjálfstæði og sjálfræði Úkraínu og lýsi yfir stuðningi og samstöðu með sveitarfélögum í Úkraínu og íbúum þeirra.

Jafnfram lýsti bæjarstjón Bolungavíkur yfir vilja til „að koma flóttafólki frá Úkraínu til aðstoðar eftir bestu getu og veita allan þann stuðning sem okkur er fært til handa úkraínsku þjóðinni.“

Sveitarstjórn Strandabyggðar vill einnig hvetja eigendur íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu sem ekki er í notkun sem slíkt á ársgrundvelli, að íhuga hvort það gæti nýst fyrir flóttafólk.

Í síðustu viku ályktaði bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar um málið á þann veg að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fordæmir harðlega innrás Rússa í Úkraínu og lýsir fullri samstöðu og stuðningi við fólkið í Úkraínu. „Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hvetur ríkisstjórn Íslands sem og aðrar vinaþjóðir til að taka á móti flóttafólki og veita allan þann stuðning sem þarf til að hjálpa úkraínsku þjóðinni að komast í gegnum þessar hörmungar. Ísafjarðarbær lýsir sig reiðubúin til að taka á móti flóttafólki frá Úkraínu.“

Búast má við að fleiri sveitarstjórnir á Vestfjörðum láti málið til sín taka með ákveðnum ályktunum.

DEILA