Sveitarstjórnarlög: styrkja ákvæði um íbúakosningar

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Innviðaráðuneytið hefur birt í samráðsgátt drög að frumvarpi til breytinga á sveitarstjórnarlögum þar sem einkum er til þess að styrkja núverandi ákvæði laganna um íbúakosningar. Unnt er að efna til slíkra kosninga við sameiningu sveitarfélaga eða til þess að skipa nefnd sem fer með afmörkuð málefni eða málaflokka fyrir hluta sveitarfélags (heimastjórn) og til þess að fá afstöðu íbúa til einstakra málefna. Segir í skýringum að fengin reynsla hafi leitt það í ljós að þær reglur sem nú gilda um íbúakosningar mættu vera skýrari.

Er það talið auka lýðræðið að stuðla að frekari beitingu íbúakosninga þar sem það eykur samráð við þá. Íbúakosningar á vegum sveitarfélaga eru almennt ekki bindandi nema sveitarstjórn ákveði annað.

Markmið frumvarpsins eru því að einfalda og skýra þær reglur sem gilda um íbúakosningar sveitarfélaga. Sú
leið sem er lögð til í frumvarpinu er að láta sveitarfélögin sjálf ákveða þær reglur sem skulu gilda um íbúakosningar á vegum þeirra. Þannig verði það í höndum sveitarfélaganna að ákveða, innan tiltekinna marka, hvernig íbúakosningar fara fram. Þá er opnuð heimild til þess að láta íbúakosningu fara fram með rafrænum hætti.

Lagt er til að ráðuneytið setji reglugerð þar sem mælt er fyrir um þau atriði sem fram þurfa að koma í reglum sveitarfélaga um íbúakosningar og að ráðuneytið staðfesti með nægilegum fyrirvara kosningareglur sveitarfélags.

„Í reglugerð ráðuneytisins þarf m.a. að koma fram að í reglum sveitarfélaga þurfi að kveða á um undirbúning, fyrirkomulag og framkvæmd kosninga, viðmiðunardag kjörskrár, auglýsingu um kjörskrá og heimild til breytinga á henni, um skipan og starfshætti kjörstjórna, meðferð kjörgagna, tímafresti, öryggi við framkvæmd sem tryggi leynd kosninga, gerð kosningakerfa, framkvæmd talningar, kosningakærur og eyðingu gagna úr kosningakerfum að
afloknum kosningum og annarra atriða sem mikilvægt er að fram komi.“ segir skýringummeð frumvarpsdrögunum.

DEILA