Suðureyri: leki úr olíutanka við kyndistöð OV

Suðureyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Á föstudaginn barst Orkubúi Vestfjarða tilkynning frá íbúa á Suðureyri sem hafði orðið var við megna olíulykt frá kyndistöð Orkubúsins á Suðureyri.  Við eftirgrennslan kom í ljós að leki hefur komið að olíubirgðatanki fyrir kyndistöðina.   Orkubú Vestfjarða hafði strax samband við heilbrigðiseftirlitið, slökkviliðið og lögreglu. Hafist var handa við að tæma olíutankinn strax í kjölfarið og verður hann ekki notaður framar. 

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Orkubúi Vestfjarða.

Olíutankurinn aftengdur

Um er að ræða birgðatank við kyndistöð sem er varaafl fyrir rafkynta hitaveitu á Suðureyri.  Undir venjulegum kringumstæðum er kyndistöðin rafkynt, en eins og fram hefur komið í fréttum þá hefur afhending á raforku til kyndistöðvarinnar verið skert vegna ákvæða í samningum á milli Orkubús Vestfjarða og Landsvirkjunar.  Til að tryggja hita í hús á Suðureyri óskaði Orkubúið eftir því við Landsvirkjun að fá að skipta aftur yfir á raforku, vegna neyðartilfellis.  Landsvirkjun heimilaði það samstundis og kyndistöðin hefur því verið keyrð á raforku síðan og verður það þar til nýr olíutankur hefur verið tengdur.

Orkubú Vestfjarða harmar þær afleiðingar sem olíulekinn hefur haft á fuglalíf á staðnum.

Umfang olíulekans og frekari afleiðingar skýrast væntanlega á næstu dögum.  Allar ákvarðanir um frekari viðbrögð og hreinsunaraðgerðir eru teknar í samráði við yfirvöld.

DEILA