Ríkisfyrirtækið Orkubú Vestfjarða ohf vill skadda friðlandið í Vatnsfirði með virkjun

Það læðist að manni þessa dagana að rafmagnsframleiðendur á Íslandi séu búnir að semja um sölu á rafmagni upp í ermina á sér. Vatnsþurrð í uppistöðulónum á hálendinu hlýtur að vera nokkuð fyrirséð og á ekki að koma á óvart með stöðugum vatnamælingum og annari aðgát. Virkjanasinnar, sem er eiginlega sérstök manngerð, hrópar nú á meiri virkjanir. Sjái þeir óbeislaða sprænu, dettur þeim ekkert annað í hug en virkjun. Það verði að koma böndum á sprænuna hvað sem það kostar og án tillits til eyðileggingar á  náttúruvéum. Það bara skal virkjað. Ríkisfyrirtækið Orkubú Vestfjarða ohf vill nú slátra friðlandinu í Vatnsfirði með Vatnsfjarðarvirkjun.

Á Vestfjörðum hagar svo til að þar er undirlendi mjög af skornum skammti og hefur víða staðið stækkun byggðar fyrir þrifum svo sem á Ísafirði þar sem landfylling hefur verið þrautalending. Af þessum ástæðum gripu  menn til þess óyndisúrræðis að setja niður byggð á svæðum þar sem snjóflóðahætta og önnur skriðuhætta var augljós. Ég hef draugabyggðina í Hnífsdal fyrir vestan á daglega fyrir augum, þau hús sem ekki urðu að bráð brunaliðinu á Ísafirði.

  Nú er það svo að í öllum landshlutum hefur mannfólkið komið sér saman um samkomustaði og griðastaði frá dagsins önn. Landnámshátíð Vestfirðinga 1974  var haldin í Vatnsfirði innar af Barðaströnd og kom vart annar staður til greina. Þangað steðjuðu flestir Vestfirðingar og fólk af vestfirsku bergi brotið og mikið við haft. Meira að segja flaut víkingaskip fyrir landi á Vatnsfjarðarvatni til að minna okkur á hugdirfsku forfeðra okkar að sigla hingað vestur í sælunnar reit.  

Ilmur bjarkarinnar og kliður söngþrastanna

Svo háttar til í þessum Vatnsfirði að þar er land mjög gróið og nokkurt skjól fyrir vindi. Veiði er í vatninu og sitja menn þar löngum að dorgum og anda að sér ilmi bjarkarinnar. Verkalýðshreyfingunni á Vestfjörðum þótti upplagt að koma upp sumarhúsabyggð í Vatnsfirði og fleiri verkalýðsfélög á landsvísu reistu þar bústaði. Einnig komst þar upp myndarlegt hótel og greiðasölustaður. Borað var eftir heitu vatni sem nú hitar upp sumarhúsabyggðina ásamt því að sundlaug varð raunveruleiki. Ekki er annað vitað en að Vatnsfjörður sé vinsæll sumardvalarstaður og þangað kemur fólk af Vestfjörðum og hvaðanæva af landinu, ekki síst barnafjölskyldur. Oft er um að ræða fólk sem ann landi sínu og vill ferðast og fræðast um landkosti og mannlíf á Vestfjörðum og ekki síst að una sér í einstæðri náttúru.

Bara að virkja

Árið 1975 var Vatnsfjörður gerður að friðlandi sem markar því sérstaka stöðu.  Ekki er gert ráð fyrir mannvirkjagerð í friðlandinu og ákveðnar reglur gilda þar um umgengni eins og í öðrum friðlöndum. Nú mætti ætla að nokkur alvara lægi að baki þeim gjörningi að gera Vatnsfjörð að friðlandi og einhvern veginn meðtekið af alþýðu manna að þarna sé einmitt F[1]iðlandið með stórum staf og ekki verði við því hróflað.  Nú er hins vegar sú tíð að virkjunarmenn klæjar í lófana eftir því að virkja í Vatnsfirði. Skýrsla frá því heilaga Landsneti bendir á Vatnsfjörð þar sem segir að ný virkjun í Vatnsfirði mundi valda straumhvörfum í afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum og áróðursvélin er þegar komin í gang. Rafmagnsskortur er á Vestfjörðum og ekki ný bóla, en afgangsorka frá Landsvirkjun verður skert til fjórðungsins og þarf að kynda með olíu. Skítt með eitt friðland. Orkubússtjóri Vestfjarða vill að orkukosturinn verði tekinn til umfjöllunar. Bæjarstjórinn á Ísafirði tekur í þennan sama streng og hugsunarlaust vill hann bara virkja í Vatnsfirði og kom fram í kvöldfréttum Útvarps fyrsta febrúar. Minnihluti Sjárfstæðisflokksmanna í bæjarstjórn Vesturbyggðar vill líka horfa til virkjunar í Vatnsfirði. Hér skal enn minnst á að heimilin í landinu nýta aðeins 5% ,segi og skrifa 5%, af öllu rafmagni sem framleitt er á Íslandi. Álver og þvíumlíkt gleypa hitt.

Vatnsfjörður.

Sú er raunin að varla er að finna slíka vin á Vestfjörðum sem er Vatnsfjarðarfriðlandið. Og auðvitað á Vatnfjarðarvirkjun ekki að hafa nein áhrif á svæðið eins og ævinlega þegar menn tala gegn betri virtund nema síður sé. Það á nefnilega að leggja akveg inn með Vatnsfjarðarvatni sem verður mikil framför frá þeim troðningi sem vér ökum nú eftir og fleira rask á eftir að verða ef farið verður af stað. Og vafalaust eigi ferðamönnum eftir að fjölga til að skoða virkjunina og kasta af sér vatni. Kunnugleg rök frá Kárahnjúkum. En þar með er draumurinn líka búinn með eitthvert friðland í Vatnsfirði. Þar verður bara ófriðarland, væntanlega í boði ríkisfyrirtækisins Orkubús Vestfjarða ohf.

Vestfirðingar eiga ekkert í Orkubúi Vestfjarða

Alkunna er að Vestfirðingar eru stoltur þjóðflokkur og berja sér á brjóst á tyllidögum, ekki síst þegar þeir eru fluttir suður. Margendurtekið að við eigum að vera sjáfum okkur nóg með rafmagn. Sem þýðir í hugum flestra að orkufyrirtækið okkar, Orkubú Vestfjarða ohf, á að framleiða næga raforku fyrir fjórðunginn. Þegar nánar er aðgætt þá eiga Vestfirðingar ekkert í Orkubúi Vestfjarða nema í hlutfalli við íbúafjölda landsmanna á Vestfjörðum. Ríkissjóður á Orkubú Vestfjarða eftir að hafa leyst eignarhluta sveitarfélaganna á Vestfjörðum til sín árið 2001 með nauðung. Móverkið var þá metið á 4.6 milljarða og áskilið í samningum að söluverðið færi upp í stórskuldir sveitarfélaganna við opinbera húsnæðiskerfið. Það er því Landsvirkjun sem við eigum að káfa upp á eins og aðrir þegnar þessa lands. Að á Vestfjörðum skuli fórnað heilu friðlandi og helst að skadda fossinn Dynjanda með tilfærslum vatns úr Stóra Eyjavatni er brjálæði eitt. Það sér hver heilvita maður. Við eigum hlutdeild í hálendisvirkjunum eins og aðrir landsmenn og Landsneti ber að leggja traustar raforkulínur hingað vestur eins og til annarra byggðarlaga í landinu. Þetta er eðlileg krafa sem stjórnmálamönnum ber að fylgja eftir og ekki verði níðst á friðlöndum Vestfjarða og öðrum náttúrurvéum.               

 Finnbogi Hermannsson er fréttamaður og rithöfundur.


[1]

DEILA