Patreksfjörður: Vestri ehf kaupir togara

Útgerðarfyrirtækið Vestri ehf á Patreksfirði hefur fest kaup á skuttogaranum Tobis frá Noregi. Skipið er á siglingu á leið til landsins og kemur til Hafnarfjarðar á laugardaginn. Afhending fer fram í næstu viku. Tobis er smíðaður í Danmörku árið 2009, er 40 metra langur og 580 tonn að stærð.

Skipstjóri verður Jón Árnason frá Örlygshöfn. Hann sagði í samtali við Bæjarins besta að togarinn verði komin vestur á Patreksfjörð upp úr miðjum mars og útgerð þess hæfist í lok apríl. Skipið er útbúið til þess að draga tvö troll og mun fara fyrst á úthafsrækjuveiðar. Í áhöfn skipsins verða 6-7 manns á rækjuveiðunum og 9-10 manns á fiskitrolli.

Togari hefur ekki verið gerður út frá Patreksfirði á þessari öld.

Skipið mun heita Vestri BA og verður sjötta skipið með þetta nafn. Fyrsti Vestri BA var keyptur 1967 og þá var Jón Magnússon skipstjóri.

Vestri BA verður grænn og gerður út frá Patreksfirði.

DEILA