Olíuleki á Suðureyri – fyrirspurnir til OV og Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða

Mögulega hefur það ekki framhjá neinum farið það umhverfisslys er ritað hefur verið um í fjölmiðlum undanfarna daga er átti sér stað í Súgandafirði. Sitthvað hefur komið fram um þessi mál og nú síðast, er þessi bútur er skrifaður, hefur sameiginleg fréttatilkynning Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða og OV verið birt. Verkferlum OV hefur greinilega verið ábótavant, og er það mögulega skýringin á því hvernig fór. Langar því undirrituðum að koma á framfæri nokkrum spurningum sem svara er óskað við, tafarlaust.

  1. Þegar gaumglas á búnaði OV brotnar, fyllist olíuskilja sem staðsett í ræsi stöðvarinnar. Hvernig getur yfirfall frá olíusíu endað í tjörninni og hversu margir lítrar eru um að ræða í þessu tilviki? Hversu marga lítra tekur yfirfallið og hvað má telja að liðið hafi langur tími þangað til þess var vart.
  2. Er kyndistöðin, sem og búnaður í samræmi við reglugerðir?
  3. Í tilkynningu kemur fram að um klukkan sirka 11 á föstudegi hafi slökkviliðið verið kallað til, vegna þess að að megna olíulykt hafi verið að finna við tjörnina sem og í sjó. Hvenær var viðbragðsaðili kominn á vettvang og hvaða ráðstafanir voru gerðar?
  4. Hvaða forsendur lágu fyrir því að bíða með ósk um aðstoð frá Umhverfisstofnun fram á mánudaginn ef það lá fyrir seinnipart föstudags að staðan væri alvarlegri en í fyrstu var talið?
  5. Hvenær áætlar OV að ljúka við endurskoðun verkferla sinna og hvar verður þá að finna?
  6. Hvernig ætlar OV að bæta fyrir það tjón sem hefur orðið á umhverfi og lífríki Súgandafjarðar?
  7. Hversu mörgum lítrum hefur verið dælt á tankinn síðan gaumglas brotnaði og eru birgðauppgjör opinber gögn?
  8. Er kyndistöðin sjálfvirk og ef svo er hvernig er viðvörunarbúnaði háttað?

Fyrirfram þakklæti fyrir greinargóð svör.

Með vinsemd og virðingu,

Aðalsteinn Egill Traustason

Íbúi Súgandafjarðar

DEILA