Fyrrv. sveitarstjóri í Súðavík í framboð í Reykjavík

Ómar Már Jónsson, fyrrverandi sveitarstjóri í Súðavík hefur ákveðið að bjóða sig fram til borgarstjórnar í Reykjavík fyrir Miðflokkinn og stefnir á fyrsta sæti listans. Ómar greindi frá þessu í gærkvöldi. Hann var í 4. sæti á lista framboðs Miðflokksins í síðustu alþingiskosningum í Reykjavík.

Ómar Már Jónsson er Súðvíkingur og var sveitarstjóri í Súðavík í 12 ár, frá 2002 til 2014. Hann sat einnig í sveitarstjórn frá 2006 til 2014. Þá flutti hann til Reykjavíkur og hóf fyrirtækjarekstur.

Í yfirlýsingu segir Ómar Már að það hafi verið nokkur aðdragandi að þessari ákvörðun eða allt síðan Vigdís Hauksdóttir, hinn skeleggi borgarstjórnarfulltrúi flokksins, ákvað að draga sig í hlé og segir hann Vigdísi hafi haldið úti kröftugri stjórnarandstöðu í borginni .

„En nú er komið að öðrum að halda uppi merki flokksins og stefnu. Eftir nokkra umhugsun ákvað ég að það væri ekki hægt að sitja hjá enda brenn ég fyrir málefnum borgarinnar þar sem ég nú bý ásamt fjölskyldu minni og rek fyrirtækið mitt. Það er svo margt sem má bæta hér í borginni okkar og því gat ég ekki hugsað mér að sleppa tækifærinu þegar kallið kom. Eftir samráð við fjölskyldu mína hef ég ákveðið að hella mér út í það verkefni að leiða lista Miðflokksins í Reykjavík.“

Óma Már segir það mikla áskorun að koma inn í borgarstjórn Reykjavíkur á þessum tímamótum. Augljóslega þurfi að gera gagngerar breytingar á rekstri borgarinnar og ná tökum á fjármálum hennar. Um leið þurfi að styrkja þjónustu við íbúa hennar og ráðast í öll þau brýnu verkefni sem hafa setið á hakanum.

DEILA