Engin breyting á burðarþolsmati og áhættumati vegna laxeldis

Nýja laxasláturhúsið í Bolungavík. Eldislaxinn færir ríkissjóði meiri tekjur af hverju kg í gjaldi en þorskurinn.
Hið nýja laxasláturhús í Bolungavík. Mynd: Björgvin Bjarnason.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið (nú matvælaráðuneytið) hefur í samvinnu við Hafrannsóknastofnun endurútgefið burðarþolsmat og áhættumat erfðablöndunar vegna laxeldis í sjó.

Ráðuneytið kynnti tillögu sína í október í fyrra ásamt umhverfismatsskýrslu og gaf umsagnarfrest til 8. desember. Eftir að hafa farið yfir innsendar athugasemdir varð það niðurstaðan að fyrri ákvörðun um burðarþol og áhættumat var staðfest óbreytt.

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál komst í fyrra að þeirri niðurstöðu að metið burðarþol einstakra fjarða og áhættumat vegna erfðablöndunar hefði verið með þeim annmörkum að áður en þessar matsgerðir fóru fram hefði átt að meta umhverfisáhrifum af þeim. Leyfin sem veitt höfðu verið til fiskeldis uppfylltu því ekki þetta formskilyrði. Ráðuneytið brást við með þeim hætti að láta gera umhverfismatsskýrslu fyrir þessar áætlanir og auglýsa hana. Því ferli er því lokið núna án þess að fyrri forsendur leyfisveitinga raskist.

Burðarþolsmat fjarða á Vestfjörðum verður því áfram 82.500 tonn. Hæst er það í Ísafjarðardjúpi 30.000 tonn. Í Arnarfirði og samanlagt í Patreksfirði og Tálknafirði er burðarþolið 20.000 tonn á hvorum stað. Burðarþolið í Dýrafirði er 10.000 tonn og 2.500 tonn í Önundarfirði.

Áhættumat erfðablöndunar er jafnt burðarþolinu í öllum fjörðum nema í Ísafjarðardjúpi en þar er það 12.000 tonn.

Á landinu öllu er samanlagt burðarþolsmat fyrir 144.500 tonn og áhættumatið er 106.500 tonn.

Í niðurstöðu umhverfismatsins segir að enginn umhverfisþáttur sé talinn verða fyrir verulegum neikvæðum umhverfisáhrifum m.v. fyrirliggjandi upplýsingar og umhverfisáhrifn í heild eru metin sem neikvæð, jákvæð og óveruleg.

DEILA