Arnarlax: auglýsir 37 störf

Höfuðstöðvar Ararlax eru á Bíldudal. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Um helgina auglýsti Arnarlax 37 störf hjá fyrirtækinu laus til umsóknar. Störfin eru flest á Vestfjörðum eða 31. Alls eru störfin í fimm mismunandi sveitarfélögum. Líklegt er að ekki hafi áður verið auglýst eftir svo mörgum störfum á Vest­fjörðum í ára­tugi.

Í fiskvinnslu fyrirtækisins á Bíldudal eru auglýst 15 störf. Í sjódeildinni á sunnanverðum Vestfjörðum eru auglýst 10 störf auk starf svæðisstjóra. Þá eru 6 störf við seiðaeldi, þarf af 4 við eldisstöðina á Gileyri í Tálknafirði og 2 á Suðurlandi. Tvö störf eru auglýst við söludeild og einnig vantar mannauðstjóra.

Starfsemi Arnarlax hefur vaxið mikið síðustu ár, en eins og kom fram í síðasta ársfjórðungsuppgjöri þá námu tekjur fyrirtækisins um 5 milljörðum íslenskra króna á tímabilinu október til desember 2021. Þessi mikli vöxtur kallar á ráðningu fleira fólks á öllum sviðum fyrirtækisins en flest störfin sem Arnarlax auglýsir um helgina eru sérfræðistörf og öll bjóða þau upp á góða tekjumöguleika.

Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax: „Ég er mjög stoltur af þessum mikla fjölda verðmætra starfa sem fiskeldið er að skapa á Íslandi. Þetta er ung atvinnugrein sem mikilvægt er að skapa góð skilyrði fyrir og við þurfum horfa til þess hvað við getum gert til að styrkja hana, þar sem hún getur skapað mikil verðmæti fyrir okkur ef rétt er að staðið. Það er ekki ýkja langt síðan hér voru brothættar byggðir um allt land en sem nú standa í blóma. Vandinn sem við stöndum helst frammi fyrir og er í raun lúxusvandi, snýr að því skapa nýju starfsfólki og fjölskyldum þeirra sem bestar aðstæður hvað varðar húsnæði og þjónustu. Við ætlum að vinna að þeim málum í samvinnu við sveitarfélögin og nærsamfélagið á hverjum stað.“

ér er hægt að kynna sér nánar öll auglýstu störfin 37: https://jobs.50skills.com/arnarlax/is

DEILA