Suðureyri: greina þarf hvað fór úrskeiðis

Við getum deilt um það þar til verðum blá í framan hvað þessi leki var lengi og hvort um sé að ræða tvö algerlega óskild mál eða ekki þann 17. febrúar og síðan 3. mars. Það sem situr mest í mér er tvennt, hvað það tók langan tíma að virkja viðbragðsáætlun og hvað við vorum lengi að fá svör á því hvað gerðist.

Þann 17. febrúar verða íbúar varir við mikla dísel lykt og olíu í tjörninni (n.b. ekki andarpollur) og hafa samband við starfsmann Orkubússins. Skýringin sem er gefin þá er að sá sem fyllti á olíuna hafi verið klaufi og sullað nokkrum litrum á planið. Síðan heyrist ekki neitt og enginn tilkynning er gefin út af Orkubúinu né Heilbrigðiseftirlitinu um málið til Íbúa Suðureyrar né er málið tilkynnt af þessum aðilum til Ísafjarðarbæjar. Á þessum tíma fram til 3. mars verða íbúar reglulega varir við dísellykt í stillu og góðu veðri sem yfirleitt er hér á Súganda.

Þegar ég keyri dóttur minni í leikskólann 3. mars og finn enn og aftur þessa miklu dísellykt hringi ég í Birgi Gunnarsson bæjarstjóra til að spyrja hvað sé eiginlega að gerast með þessa dísellykt sem búin er að vera í þorpinu af og til í 3 vikur og hann vissi ekkert. Hvorki Orkubúi né heilbrigðiseftirlit haft samband við hann eða starfsmenn Ísafjarðarbæjar. Mér finnst það skrítið að Ísafjarðarbæ sé ekki tilkynnt um málið af þessum aðilum um tjón í þeirra þorpi.

Síðan byrjar það að enginn getur tekið neinar ákvarðanir um aðgerðir ýmist vegna þess að Orkubúið er ekki búið að virkja sínar viðbragðsáætlun eða að bíða eftir að Umhverfisstofnun mæti á svæðið sem kom ekki fyrr en mánudagskvöld og hóf engar aðgerðir fyrr en á miðvikudag (engin beiðni um að girða höfnina, setja pulsur eða mottur í tjörnina fyrir þann tima) og það sem mér finnst alvarlegasta við það að 9.200 l af olíu leka í tjörn og út í sjó er fuglalífið, æðarkollurnar okkar.

Enginn ber ábyrgð á þeim. Enginn hringdi í nokkurn mann eða virkaði neitt eftirlit með þeim. Hvar er það embætti? Seinnipartinn í gær er haft samband við meindýraeyði. En hann tekur bara dauða fugla eða hálfdauða fugla. Hvað með þá fugla sem hafa það ágætt en þyrftu smá aðhlynningu í nokkra daga? Hvað með þá fugla sem íbúar hafa tekið að sér að sinna alla helgina og haldið á lífi? Á að aflífa þá eingöngu vegna þess að þetta heyrir ekki undir neinn viðbragðsaðila eins og er? Hvar er aðgerðaráætlun Orkubús Vestfjarða fyrir fuglalíf sem verður fyrir skaða vegna umhverfisslys? Hversvegna var ekki hringt í neinn útaf fuglunum fyrr en seinnipartinn i gær? Hvar er aðgerðaráætlun Orkubús Vestfjarða til að lágmarka skaða á lífríki í sjó af völdum umhverfisslys? Hvar er viðbragðsáætlun Orkubús Vestfjarða í almennri upplýsingagjöf til almennings?

Það er nefnilega svo að ef þú segir ekki satt frá í byrjun er erfitt að trúa þér eftir á. Ef fyrst er talað um nokkra lítra, síðan tugi og hundruð og svo þúsund, og fyrst mistök við áfyllingu, svo var það í raun brotið gler og svo leki meðfram rörum en reyndar þá var það gat á tanki, þá missir þú fljótt trúverðugleika.

Ég hvet alla viðbragðsaðila til þess að setjast niður á rýnifund og fara yfir það sem þarna gerðist og hvað hefði mátt gera betur, hvernig upplýsingagjöf var verulega ábótavant og aðilar á borð við meindýraeyði kallaðir alltof seint að borðinu. Við á Suðureyri eigum betra skilið en þetta. Okkur þykir vænt um tjörnina okkar, höfnina okkar og virkilega vænt um fuglalífið í þorpinu okkar. Einhver þarf að bera ábyrgð á þeirra velferð.

Sædís Ólöf Þórsdóttir,

formaður Hverfisráðs Suðureyrar

DEILA