Vilja nýja Breiðafjarðarferju

Átta alþingismenn hafa lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um kaup á nýrri Breiðafjarðarferju og að nota skuli Herjólf III þar til nýja ferjan verður tiltæk. Fyrsti flutningsmaður er Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi. Með honum eru 5 aðrir þingmenn Flokks fólksins, Ásmundur Friðriksson (D) og Bjarni Jónsson (V).

Í tillögugreininni segir að Alþingi feli „innviðaráðherra að láta kaupa nýja ferju sem verði notuð í reglulegum ferjusiglingum á Breiðafirði. Ferjan uppfylli nútímakröfur um öryggi og þægindi í farþegaflutningum og geti sinnt vöruflutningum fyrir atvinnulíf og íbúa á Vestfjörðum og við Breiðafjörð. Kannaðir verði möguleikar á að ferjan verði knúin með endurnýjanlegum orkugjöfum. Vegagerðin hafi virkt samráð við sveitarfélög á Vesturlandi og Vestfjörðum um hvaða kröfur ferjan skuli uppfylla. Þar til ný ferja verður tekin í notkun skuli nýta skipið Herjólf III, skráningarnúmer 2164, í reglulegum ferjusiglingum á Breiðafirði. Eins fljótt og auðið er, og eigi síðar en í júní 2022, skuli hefja framkvæmdir á hafnarmannvirkjum á ferjuleið til að tryggja að Herjólfur III geti tekið við ferjusiglingum sem fyrst.“

Í greinargerð með tillögunni er rakin þörfin fyrir nýju skipi. Hún hafi ekki varavél og sé því ekki nógu öruggg. Þá sé  lestin í núverandi Baldri ekki nógu stór til að anna eftirspurn laxeldisfyrirtækja sem hamlar uppbyggingu laxeldis á Vestfjörðum. Framleiðsla á eldislaxi muni tvöfaldast innan fimm ára frá því sem nú er. Flutningar afurða og aðfanga muni því stóraukast og vegakerfið þarf að taka mið af því. Miklu skiptir að fersk afurð skili sér á áfangastað sem fyrst. Það getur tvöfaldað flutningstíma ef ferjusiglingar liggja niðri segir í greinargerðinni.

Þá er vísað til ályktunar Fjórðungssambands Vestfirðinga á Fjórðungsþingi hinn 23. október sl. en það segir að nauðsynlegt sé að endurnýja Baldur. Í ályktuninni kemur fram að ferjan sé grunnstoð í samgöngum á Vestfjörðum nú þegar séð er fram á heilsárssamgöngur milli sunnan- og norðanverðra Vestfjarða með framkvæmdum á Dynjandisheiði. Í ályktuninni er lagt til að strax verði gerðar breytingar á hafnarmannvirkjum svo að hægt verði að nota gamla Herjólf í ferjusiglingar þar til ný ferja kemur til landsins. Ekki dugi að bíða þar til samningur um ferjusiglingar rennur út í maí 2022. Í ályktuninni kemur einnig fram að nauðsynlegt sé að ljúka við gerð viðbragðsáætlunar vegna ferjuslysa á Breiðafirði. 

DEILA