Vesturbyggð: Sjálfstæðismenn og óháðir vilja skoða Vatnsfjarðarvirkjun

Mynd af staðsetningu Vatnsfjarðarvrikjunar.

Sjálfstæðismenn og óháðir í Vesturbyggð, sem eru í minnihluta í sveitarstjórninni, hafa sent frá sér yfirlýsingu um virkjun í Vatnsfirði. Þar segir að auka þurfi framleiðslu á raforku í fjórðungnum til að bæta afhendingaröryggi og lausnir með brennslu olíu dugi ekki lengur. Þeir eru fylgjandi því að Vatnsfjarðarvirkjun verði skoðuð sem raunhæfur valkostur. Segir að lokum að framtíðarsýn Vestfirðinga í raforkumálum verði eitt af því sem verður til umræðu í kosningunum í vor.

Yfirlýsingin í heild:

„Virkjun í Vatnsfirði

Skilaboðin eru skýr um að auka þarf framleiðslu á raforku í fjórðungnum til að bæta afhendingaröryggi. Þetta eru auðvitað ekki ný tíðindi og fátt fengið meiri umfjöllun á undanförnum árum en einmitt afhendingaröryggi og orkuöflun Vestfirðinga. Ýmis áform hafa komist í umfjöllun en hafa því miður ekki nema brot af þeim, náð að verða að veruleika. Öryggismálin fengu verðskuldaða athygli og lausnin var jú sú að brenna meiri dísilolíu til að bregðast við ef óveður eða önnur vá steðjar að.

En ætli menn sér að standa í lappirnar, nú þegar fyrirsjáanleg er aukin eftirspurn eftir raforku, ekki hvað síst vegna orkuskipta og metnaðarfullra áforma í atvinnuuppbygginu, þá er ljóst að lausnir fortíðar með tilheyrandi olíubrennslu og plástrar á sárin duga ekki lengur. 

Fram kom í nýlegri skýrslu Landsnets, sem unnin var af verkfræðistofunni Eflu, um áreiðanleika afhendingar raforku á Vestfjörðum, að Vatnsfjarðarvirkjun geti aukið afhendingaröryggi forgangsorku á Vestfjörðum meira en sú aðgerð að tvöfalda Vesturlínu úr Hrútatungu í Mjólká. Svo ekki sé farið dýpra í aðra þætti sem nauðsynlegt er að skoða í þessu samhengi, s.s. efling innviða á vestursvæði með tilliti til orkuskipta.

Nýr veruleiki okkar Vestfirðinga er svo brennsla á olíu til raforkuframleiðslu til húshitunar, sem samræmist auðvitað engan veginn markmiðum og skuldbindingum okkar í loftlagsmálum. Vægast sagt varhugaverð þróun sem á endanum mun bitna á heimilum og atvinnulífi á Vestfjörðum ef ekki verður brugðist við.

Ætli Vestfirðingar sér að vera þátttakendur í orkuskiptum og gangast undir þær alþjóðlegu skuldbindingar sem gerðar hafa verið, þá er nauðsynlegt að taka afgerandi skref á komandi árum, en það verður ekki gert án aðkomu ríkisvaldsins. Það hefur komið skýrt fram í opinberri umræðu að ákjósanlegur kostur og jafnvel einn sá umhverfisvænsti er virkjun í Vatnsfirði. Við erum fylgjandi því að sá virkjanakostur verði skoðaður og höfum gert okkar til koma þeim skilaboðum áleiðis til ríkisvalds og þeirra sem bera ábyrgð á því að hægt verði að skoða virkjun í Vatnsfirði sem raunverulegan valkost. Það er þó margt sem þarf að ganga upp áður en það getur orðið að veruleika og gera verður ráð fyrir að framtíðarsýn Vestfirðinga í raforkumálum verði eitt af því sem verður til umræðu í kosningunum í vor.

f.h. minnihluta í bæjarstjórn Vesturbyggðar

Friðbjörg Matthíasdóttir
Ásgeir Sveinsson
Magnús Jónsson
Guðrún Eggertsdóttir“

DEILA