Vesturbyggð: Friðbjörg Matthíasdóttir hættir í bæjarstjórn

Friðbjörg Matthíasdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins og óháðra hefur ákveðið að láta staðar numið og bjóða sig ekki fram fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar.

Hún segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að hún hafi tilkynnt baklandinu að hún muni ekki gefa kost á sér á lista í Vesturbyggð í komandi sveitarstjórnarkosningum.

„Ég hef ég verið bæjarfulltrúi í bæjarstjórn Vesturbyggðar frá árinu 2010. Sá tími, núna bráðum 12 ár hefur verið bæði lærdómsríkur og skemmtilegur, oft á tíðum krefjandi, en um fram allt gefandi. Það er virkilega þakklátt að fá að starfa í þágu síns samfélags og leggja sitt af mörkum í þá vinnu sem þarf að sinna til að koma málum áfram, ná málamiðlunum eða gefa eftir ef það er niðurstaðan. Samherjar og mótherjar sem allir brenna fyrir því að vinna sínu samfélagi til heilla. Þetta er ekki alltaf auðvelt, en það má aldrei gleyma að hafa gaman, þannig að hæfilega blanda af gleði og húmor ætti aldrei að vera langt undan, svo ég tali nú ekki um á þessum dimmu og sólarlausu vetrarmánuðum. Þegar ég lít til baka þá er margt að þakka, ég hef kynnst ótrúlega mikið af frábæru fólki og starf á vettvangi sveitarstjórnarmálanna hefur bætt heilmiklu í reynslubanka lífsins.

Ég læt staðar numið hér, þakka fyrir þennan tíma og þakka þeim sem hafa haft óbilandi trú á mér og veitt mér brautargengi með hvatningu og stuðningi til að starfa að þessum málum, ásamt því frábæra fólki sem hefur skipað sæti á lista sjálfstæðismanna og óháðra í Vesturbyggð allan þennan tíma!“

DEILA