Vesturbyggð: allar konurnar í bæjarstjórn hætta í vor

Ráðhús Vesturbyggðar.

Allar fjórar konurnar sem sitja í bæjarstjórn Vesturbyggðar hafa ákveðið að hætta í vor. Tveir listar fengu fulltrúa kjörna, Ný sýn sem fékk hreinan meirihluta 4 fulltrúa og Sjálfstæðisflokkur og óháðir sem fengu 3 fulltrúa. Oddvitar beggja listanna Iða Marsibil Jónssdóttur, Ný sýn og Friðbjörg Matthíasdóttir, Sjálfstæðisflokki og óháðum hafa báðar greint frá því að þær munu ekki vera í framboði við bæjarstjórnarkosningarnar í vor.

Til viðbótar hafa þær Þórkatla Soffía Ólafsdóttir og María Ósk Óskarsdóttir (Ný sýn) svarað fyrirspurn Bæjarins besta og upplýst að þær muni ekki vera í framboði í vor.

Því liggur fyrir að allar fjórar konurnar í bæjarstjón munu hætta í vor. Þrír af fjórum bæjarfulltrúum Nýrra sýnar, sem hefur hreinan meirihluta, munu hætta. Fjórði bæjarfulltrúinn er Jón Árnason, skipstjóri hefur ekki svarað enn fyrirspurn Bæjarins besta.

Ásgeir Sveinsson, bæjarfulltrúi D lista segist áfram hafa áhuga á bæjarmálum og að ekki sé útilokað að hann slái til verði eftir því leitað að hann bjóði sig fram.

Magnús Jónsson er þriðji bæjarfulltrúi D -lista og hann segir að viðræður séu í gangi en engin ákvörðun hafi verið tekin.

DEILA