Uppskrift vikunnar – Öðruvísi Gúllassúpa

Þetta er öðruvísi gúllassúpa þar sem það er hakk í stað gúllas í henni sem gerir það að auki súpunni ódýrari og aðeins léttari.

Ég keypti bara einhvern tímann hakk en langaði meira í súpu og ákvað bara að prufa og hef gert þetta oft síðan. Það er líka upplagt að gera þessa súpu sem hálfgerða naglasúpu, bara nota grænmetið sem til er í ísskápnum.

Innihald:

1 msk olía

400 g nautahakk

5 sneiðar beikon

1 laukur

2 hvítlauksrif

3 gulrætur

1 rauð paprika

5 – 6 kartöflur

5 – 6 sveppir

2 dósir saxaðir tómatar (400 g dósin)

1 líter soð (soðið vatn + tveir nautakraftsteningar)

salt og pipar

1 tsk hvítlauksduft

1 tsk paprikuduft (mér finnst reykt paprika best)

Aðferð:

  1. Hitið olíu í stórum potti, steikið hakkið og smátt skorið beikon þar til beikonið er orðið stökkt. Kryddið hakkið að sjálfsögðu með salti og pipar.
  2. Skerið lauk, hvítlauk, gulrætur, papriku, kartöflur og sveppi afar smátt og bætið út í pottinn, steikið í smá stund eða þar til grænmetið er orðið mjúkt.
  3. Kryddið til með þeim kryddum sem eru talin upp hér að ofan.
  4. Hellið söxuðum tómötum og soðinu út í pottinn og náið upp suðu.
  5. Leyfið súpunni að malla í 20 – 30 mínútur, ef þið hafið nægan tíma þá er frábært að leyfa súpunni að malla við vægan hita lengur en súpan verður mun bragðmeiri ef hún fær að malla í svolitla stund.
  6. Berið súpuna fram með sýrðum rjóma og smátt saxaðri steinselju eða klettasalati.

Verði ykkur að góðu!

Halla Lúthersdóttir.

DEILA